Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 43
BJÖRn ÞORSTeInSSOn
46
sem hvorki mölur né ryð fái grandað – allt þetta er tóm blekking, einstakl-
ingurinn er ekkert annað en miðill þess „ódauða lífs“ sem reynir allt hvað
af tekur að verjast þeim algjöra dauða sem stöðugt sækir að. Þar er ef til vill
kominn kjarninn í hugmyndinni um geldinguna – sá endanlegi sannleikur
sem Ödipusarlíkanið elur með sér. Og þá er eins og einhver spyrji, með
orðum listaskáldsins góða: „Hvert er þá orðið okkar starf?“
Deleuze og Spinoza um siðfræði
Í skrifum sínum um Spinoza dregur Gilles Deleuze hliðstæður milli gagn-
rýni Spinoza og nietzsches á siðferði sem hamlandi eða jafnvel kúgandi
kerfi reglna og viðmiða sem drægi úr þeim lífskrafti sem mannverurnar búa
yfir.22 Sem kunnugt er beindi sá síðastnefndi spjótum að siðferðinu víða í
ritum sínum, ekki síst í tveimur höfuðritum sem hann sendi frá sér á árinu
1887, Af sifjafræði siðferðisins og Handan góðs og ills.23 Siðferðið hvílir að mati
nietzsches, og/eða Spinoza í túlkun Deleuze, á greinarmuninum á góðu og
illu. á móti þeim greinarmun tefla hugsuðirnir þrír fram muninum á góðu
og slæmu. Hugsunin hér er ekki ýkja flókin: það er gott sem styrkir okkur,
byggir okkur upp og eykur okkur kraft og þor, en það er slæmt sem hefur
gagnstæð áhrif, veikir okkur, rífur okkur niður og dregur úr okkur máttinn.
Í þessu sambandi talar Spinoza um samruna eða samfundi eins líkama við
annan, og er þá orðið „líkami“ skilið í almennri merkingu að hætti rúmfræð-
innar.24 Þannig getur samfundurinn verið milli tveggja mannvera, en einnig
milli mannveru annars vegar og ávaxtar, drykkjar eða hugmyndar hins vegar
– en einnig milli „dauðra“ hluta eins og jarðar og sólargeisla eða jarðar og
loftsteins. nánar tiltekið er það gott sem hæfir eðli þeirra líkama sem í hlut
eiga, hvers um sig, en það er slæmt sem stríðir gegn þessu eðli (sem De-
leuze nefnir einnig kennisamband (fr. rapport caractéristique)). á grundvelli
þessarar flokkunar má sjá fyrir sér tvenns konar manngerðir, eða, eins og
Deleuze orðar það:
22 Gilles Deleuze, Spinoza. Philosophie pratique, París: Minuit, 1981, 2. útgáfa; Gilles
Deleuze, Spinoza et le problème de l’expression, París: Minuit, 1968.
23 Friedrich nietzsche, Af sifjafræði siðferðisins, Róbert Jack þýddi, Reykjavík: Hið ís-
lenska bókmenntafélag, 2010; Friedrich nietzsche, Handan góðs og ills, Þröstur ás-
mundsson og Arthúr Björgvin Bollason þýddu, Reykjavík: Hið íslenska bókmennta-
félag, 1994, 2. útgáfa 2005.
24 „Líkama köllum vér það eitt, sem er þreifanlegt eða tekur upp nokkurn hluta rúms“
segir í þýðingu Magnúsar Grímssonar á Eðlisfræði eftir J.G. Fischer (Kaupmanna-
höfn, 1852), sbr. Ritmálssafn Orðabókar Háskólans, https://ritmalssafn.arnastofn-
un.is/.