Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 21
TORFI H. TulINIuS
24
Þegar hér er komið sögu hefur Flosi bætt fyrir brennu Njáls og fjölskyldu
hans, enda segir sagan að hann hefði „af hendi innt alla sætt sína bæði í utan-
ferðum ok fégjǫldum“ (462). Sáttin er ekki bara við menn heldur líka við
Guð, því „hann tók lausn af páfanum sjálfum ok gaf þar til mikit fé“ (462).
Því vekur athygli að lögð er áhersla á að hann lætur sér í léttu rúmi liggja
aðvaranir um að leggja í langferð yfir stríða Atlantsála á löskuðu skipi. Enda
hverfur skipið og gera verður ráð fyrir því að það hafi farist með manni og
mús. Það er einkennileg ró yfir afstöðu Flosa, jafnvel þótt segja megi að
hún sé óábyrg, því hann hættir ekki aðeins eigin lífi heldur skipshafnarinnar
allrar. Höfundur hefur varast að nefna til sögunnar nokkurn úr henni og
þannig forðast að vekja samúð með þeim hjá lesendum. Þvert á móti virðist
afstaða Flosa stórmannleg og æðrulaus. Þessi endir hæfir miklum harmleik
á borð við Brennu-Njáls sögu. Ástríðurnar hafa fengið útrás og sögupersón-
urnar geta horfið á ný inn í fortíðina.
Flosi er aðeins ein af mörgum persónum sögunnar sem virðast taka eigin
dauða fagnandi. Jákvæð afstaða til eigin andláts virðist gegna veigamiklu
hlutverki í sögunni, eins konar þrá eftir endalokunum. Örlög Flosa minna
á það sem Sigmund Freud hefur að segja, í „Handan vellíðunarlögmálsins“,
um þrá allra lífvera til „að hverfa aftur til kyrrstöðu ólífrænnar veraldar“.3 Í
þeirri ritgerð setti hann fram tilgátu sína um dauðahvötina sem mikilvægan
þátt í aflfræði sálarlífsins. Hér verður reynt að öðlast betri skilning á bygg-
ingu og merkingarsmíð í Brennu-Njáls sögu með hugmyndir Freuds og spor-
göngumanna hans að leiðarljósi.
Sálgreining og fornsögur
Brennu-Njáls saga er harmleikur og snýst að verulegu leyti um ástir og ör-
lög. Hvort tveggja býður upp á nálgun út frá kenningum sálgreiningarinnar.
Þetta er því ekki í fyrsta sinn sem slíkt er reynt. Til dæmis var Richard F.
Allen undir áhrifum frá hugmyndum C.G. Jung þegar hann skrifaði bókina
Fire and Iron um söguna.4 Síðar sendi Carolyn Anderson frá sér athyglis-
verða grein þar sem hún fjallar um kyngervi í sögunni út frá kenningum
3 Sigmund Freud, „Handan vellíðunarlögmálsins“, Ritgerðir, Sigurjón Björnsson
þýddi, ritaði inngang og skýringar, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2002,
bls. 81–147, bls. 146.
4 Richard F. Allen, Fire and Iron. Critical Approaches to Njáls saga, Pittsburgh: university
of Pittsburgh Press, 1971.