Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 102
TIL TUNGLSINS OG TIL BAKA
105
lagi í samhengi hvatahagkerfisins (e. libidinal economy) sem hann notaði til að
skilja ástarsambönd. Þegar sálgreiningu er beitt við lestur kvikmyndatextans
innan kvikmyndafræðinnar hefur sú hugmynd gjarnan legið til grundvallar
að samsvörun af einhverju tagi megi sjá milli kvikmyndatextans og þeirra
hugrænu kerfa sem Freud gerði að viðfangsefni rannsókna sinna.7 Hér
verður gerð tilraun til að beita sálgreiningu með öðrum hætti og því haldið
fram að getgátur um slíka samsvörun séu óþarfar, heldur beri að staldra við
verklag Freuds sjálfs og virkja sem fyrirmynd. Rétt eins og hann hlustaði
með opnum huga á skjólstæðinga sína getur það reynst gagnlegt að hlusta á
textana sem taka á til umfjöllunar án þess að áfangastaður greiningarinnar sé
ljós frá upphafi. Í stað þess að þröngva viðfangsefninu inn í fyrirframgefna
merkingarformgerð skyldi heldur leitast við að beita túlkunarvísindunum
(e. hermeneutics) sem óaðskiljanleg eru aðferðafræði sálgreiningarinnar til að
stofna til samtals við skírskotanir og merkingarvirkni texta.8 Eins skyldi taka
það með í reikninginn að í greiningarvinnunni felst að kenningar og hugtök
Freuds eru gaumgæfð og leitað til þeirra þegar þau gagnast til að varpa frek-
ara ljósi á kvikmyndatextann. Þá er líka gert ráð fyrir því að kvikmyndin geti
víkkað út og flækt skilning okkar á hugmyndum sálgreiningarinnar um ást.
Ástarspeki Freuds
Freud er ekki vinsæll í brúðkaupum. Hann er ekki á meðal þeirra spekinga
sem vísað er til í ræðum sem eiga að hreyfa við gestum og hvetja nýbökuð
hjón til dáða við upphaf vegferðar þeirra. Engu að síður má segja að ástin svífi
7 E. Ann Kaplan rekur þróun kvikmyndakenninga er styðjast við sálgreiningu í inn-
gangi sínum að bókinni Psychoanalysis & Cinema. Sjá E. Ann Kaplan, „Introduc-
tion. From Plato’s Cave to Freud’s Screen“, Psychoanalysis & Cinema, New York og
London: Routledge, 1990, bls. 1–23.
8 Aðferðin sem reynt verður að forðast hér felur í sér „afhjúpun“ (e. demystification)
á dulinni merkingu texta, þar sem áhersla er lögð á „sjúkdómseinkenni“ (e. symp-
tom) sem eru vísbendingar um togstreitu í verkinu. Eins og Tim Dean hefur bent
á í gagnrýni sinni á Slavoj Žižek og marxíska menningargagnrýni sem byggir á sál-
greiningu, er þar oft gert ráð fyrir því að „listaverkið villi á sér heimildir eða segi
eitthvað óvart […] og þurfi þess vegna á menningarrýninum að halda“ til að afhjúpa
raunverulega merkingu þess (Tim Dean, „Art as Symptom. Žižek and the Ethics
of Psychoanalytic Criticism“, Diacritics 2/2002, bls. 21–42, hér bls. 29–30). Tre-
vor C. Pederson setur fram svipaða gagnrýni í nýlegri bók, þar sem hann bendir á
tilhneigingu gagnrýnenda til að leita að vísbendingum sem styðja fyrirframgefna
greiningu þeirra á kvikmyndatextanum, hvort sem leit þeirra er að reðurtáknum,
ummerkjum ödipusarduldar eða annarra viðfangsefna sálgreiningar. Sjá Trevor C.
Pederson, Psychoanalysis and Hidden Narrative in Film. Reading the Symptom, London
og New York: Routledge, 2018, bls. 2.