Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 70
AFGERANDI AUGNABLIK
73
minningar lyti alltaf lögmáli um upphaf, miðju og endi, og því væri auðvelt
fyrir einstaklinginn að laga hana að þeirri heildarmynd sem hann drægi upp
af lífi sínu.39
Frásagnarminni fylgir ákveðin viðurkenning á því sem átti sér stað en um
leið ákveðin útilokun. Með því að innleiða upplifunina í frásögn smættum
við hana niður. Þessi viðleitni til þess að segja satt felur þannig í sér mótþróa
gagnvart því sem má skilgreina sem heildarupplifun eða heildarskynjun á
veruleikanum á tilteknu augnabliki. Úrvinnslan sjálf felur því í sér ákveðna
útilokun en engu að síður er hún nauðsynleg fyrir þann sem vill losna undan
valdi hins trámatíska atburðar og læra að lifa með honum.40 Sálgreinirinn
Dori Laub, sem lifði Helförina af sem barn, orðar þetta þannig: „Þeir sem
lifðu af, þurftu ekki aðeins að komast af til þess að geta sagt sögu sína, þeir
þurftu einnig að segja sögu sína til þess að lifa af.“41
Úrvinnslan krefst þess að við séum skapandi í nálgun okkar á fortíðina,
að við séum fær um að beita ímyndunaraflinu til að losna undan valdi hins
trámatíska atburðar. Í þessu sambandi er rétt að minna á þann greinarmun
sem Bergson gerði á hreinu minni og myndbirtingarminni. Losun og
úrvinnslu má einnig auðveldlega yfirfæra á þann greinarmun sem Paul
Ricoeur gerir á „endurtekningarminni“ og „minni sem vinnur á sviði hins
ímyndaða“. Ricoeur vísar í Bergson til að skýra þennan greinarmun:
„Til að geta endurvakið fortíðina sem mynd, verðum við að draga
okkur í hlé frá augnablikinu sjálfu, við verðum að vera fær um að
meta það sem virðist einskis virði, við verðum að búa yfir viljanum
til að láta okkur dreyma.“42
39 van der Kolk og van der Hart, „The Intrusive Past“, bls. 159–163. Enska hugtakið
yfir frásagnarminni er narrative memory og þannig er vísað til þess í grein van der
Kolk og van der Hart. Í þessu sambandi er áhugavert að benda á umfjöllun banda-
ríska rithöfundarins Siri Hustvedt um Janet í bók sem vinnur á mörkum skáld-
sögunnar, fræðibókarinnar og ævisögunnar og líta má á sem meðvitaða úrvinnslu
rithöfundarins á tráma sem hún upplifði í tengslum við andlát föður síns. Sjá Siri
Hustvedt, The Shaking Woman or A History of My Nerves, London: Sceptre, 2011,
bls. 23–26.
40 Cathy Caruth, „Recapturing the Past. Introduction“, Trauma. Exploration in Me-
mory, Cathy Caruth ritstýrði, Baltimore og London: The Johns Hopkins University
Press, 1995, bls. 151–157, hér bls. 153.
41 Dori Laub, „Truth and Testimony. The Process and the Struggle“, Trauma. Explora-
tion in Memory, Cathy Caruth ritstýrði, Baltimore og London: The Johns Hopkins
University Press, 1995, bls. 61–75, hér bls. 63.
42 Ricoeur, Memory, History, Forgetting, bls. 25.