Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 158
DRaUMa-JÓI, RannSÓKn 3
237
en Ágúst fer á fund Drauma-Jóa, og að hvatinn til þess kemur utan frá. Eftir
alla þessa vinnu hljóta að hafa skapast vonir og væntingar varðandi ákveðnar
niðurstöður úr rannsókninni.
Óljóst er hvort Ágúst hefði sjálfur verið sáttur við að láta rannsóknina
fyrst og fremst hverfast um sagnasafnið og að athuga hvaða sögur hann gæti
fengið vottfestar, eins og hann kallaði það. Spyrja má, ekki síst í ljósi nokk-
urra erlendra dæma um fjarvísi sem Ágúst rekur strax í byrjun bókarinnar,
hvort hann hafi verið svo viss um það fyrirfram að fyrirbærið væri raunveru-
legt að hann hafi varla talið nauðsynlegt að ganga úr skugga um ætlaða gáfu
Drauma-Jóa með tilraun. Slíkt sjónarmið gæti skýrt að hluta hvers vegna
rannsóknin verður nokkuð laus í reipunum.
Þegar hann í bók sinni hefur rakið erlend dæmi um fjarskyggni þar sem
Emanuel Swedenborg15 og stúlkan Ellen Dawson16 koma við sögu, segir
hann: „Þessar sögur ættu nú að vera nægilegar til þess að sýna, í hverju hin
svonefnda fjarvísi er fólgin. En hvernig á nú að skýra þetta?“17
Spurningin er ekki um hvernig eigi að sanna eða afsanna hvort eigin-
leikinn sé til. Fjarvísi virðist strax í upphafi bókar vera, ef ekki staðreynd, þá
að minnsta kosti mjög líkleg sem raunverulegt fyrirbrigði. Árið áður hafði
Ágúst fjallað um áþekk fyrirbæri í ritgerðinni „Rannsókn dularfullra fyrir-
brigða“. Þar segir hann: „og þá komu fjarhrifin fyrst svo ótvírætt í ljós, að
þau gátu heitið vísindalega sönnuð.“18 Í Drauma-Jóa þarf því fyrst og fremst
að skýra hvernig fjarskyggnin virkar.
Áður en Ágúst greinir frá tilrauninni á Jóa segir hann frá annarri tilraun
sem gerð hafði verið á honum 1903 á akureyri, af þremenningunum Snæ-
birni arnljótssyni verslunarstjóra á Þórshöfn, prófessor Guðmundi Hannes-
syni, og Guðmundi Finnbogasyni. Sá síðast nefndi varð doktor í sálfræði
sama ár og Ágúst H. Bjarnason, en þeir tveir voru fyrstu sálfræðidoktorar
landsins og kepptu um prófessorsstöðu við Háskóla Íslands sem var formlega
stofnaður 17. júní 1911. Ágúst vitnar í það sem hann kallar skýrslu doktors-
15 Sama rit, bls. 11.
16 Sama rit, bls. 15.
17 Sama rit, bls. 19.
18 Ágúst H. Bjarnason, „Rannsókn dularfullra fyrirbrigða“, bls. 21. Fjarhrif er að
sögn Ágústs þýðing hans á enska orðinu telepathy, en fjarskyggni er þýðing hans á
orðunum telæsthesia, clairvoyance, luciditet og second sight. Farandskyggni er svo
íslenskun hans á hugtakinu travelling clairvoyance. Ágúst H. Bjarnason, Drauma-Jói,
bls 20–23. Þessi fyrirbæri geta síðan brugðið ljósi á og að hluta skýrt hvert annað:
„Þannig getur fjarvísin þá ýmist stafað af fjarhrifum frá öðrum lifandi verum, af
fjarskygni og af svo nefndri farandskygni.“ Sama rit, bls. 23.