Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Side 80
KóRaLÍNa OG MæðUR HENNaR
83
barnabókum sem bjóði ekki upp á neina dýpri vitneskju um merkinguna
með lífi þeirra. Sögur verði fyrst og fremst að vekja forvitni barna og örva
ímyndunaraflið. Þær verði að þroska greind þeirra og hjálpa þeim að ná
tökum á ruglingslegum og mótsagnakenndum tilfinningum og innri ótta.
Engir textar hjálpi þeim betur til þess en gömlu alþýðuævintýrin.7
Bettelheim notaði lestur ævintýra til að ná til barnanna og klínísk reynsla
hans sýndi að þau áttu það til að velja eitt ævintýri öðrum fremur sem þau
vildu heyra aftur og aftur þó þau væru hrædd við það. Það sýndi, að hans
mati, að barátta hetjunnar og skrímslisins endurspeglaði innri átök barnsins
sjálfs. Ef barnið vildi tala um þennan ótta við foreldrana væri það léttir fyrir
það. En væru tilfinningar þess ennþá dulvitaðar ættu foreldrar ekki að túlka
ævintýrið fyrir það heldur bíða uns gamla ævintýrið hefði misst aðdrátt-
arafl sitt og barnið væri tilbúið til að takast á við ný viðfangsefni.8 Karen
Coats varpar því fram hvort miklar vinsældir draugasagna og hrollvekja hjá
börnum í dag megi ef til vill skýra með því að þær fylli upp í þá eyðu sem
skapaðist þegar gömlu ævintýrin voru hreinsuð af sínu skýru línum um gott
og illt, umbun og refsingu.9
Hugmyndir Bettelheims byggðust aðallega á tveimur hugtökum Sig-
munds Freud, tilfærslu (þýs. Verschiebung, e. displacement) og yfirfærslu (þýs.
Übertragung, e. transference). Tilfærsla er frumferli sem færir dulvitaða og
forboðna vitneskju yfir á annað saklausara, meðvitað fyrirbæri eða persónu.
Yfirfærsla, sem er lykilhugtak í sálgreiningunni, felur yfirleitt í sér tilfærslu.
Hún einkennir drauma þar sem dulvituð skilaboð „þéttast“ í ákveðnum
táknum. Yfirfærsla gegnir miklu hlutverki í sambandi sjúklings og sálgrein-
anda hans.10 Í þessu samhengi bendir Bettelheim á að ævintýrin séu skýr
7 Sama rit, bls. 4–6.
8 Sama rit, bls. 18–19.
9 Karen Coats, „Between Horror, Humour, and Hope. Neil Gaiman and the Psychic
Work of the Gothic“, í The Gothic in Children’s Literature. Haunting the Borders, ritstj.
anna Jackson, Karen Coats og Roderick McGillis, New York: Routledge, 2008, bls.
77–93, hér bls. 78–81. Sama ár og grein Coats birtist, það er 2008, birtust greinar
eftir David Rudd og Richard Gooding sem vísað er til síðar í greininni. Þessar þrjár
greinar hafa verið mikilvægar fyrir alla þá sem síðar hafa skrifað um Kóralínu frá
sjónarhóli sálgreiningar.
10 Sjá: Sigmund Freud [1900], Die Traumdeutung, 2. og 3. bindi, Gesammelte Werke,
London: S. Fischer Verlag, 1942, bls. 568–569; Sigmund Freud [1912a], „Zur
Dynamik der Übertragung“, 7. bindi, Gesammelte Werke, London: S. Fischer Ver-
lag, 1943, bls. 367; Sigmund Freud [1914], „Erinnern, Wiederholen und Durchar-
beiten“, 12 bindi, Gesammelte Werke, 1946, bls. 130. Ég fjalla einnig um þessi hugtök
í bók sem byggir á doktorsritgerð minni, sjá: Dagný Kristjánsdóttir, Kona verður