Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 172
DRaUMa-JÓI, RannSÓKn 3
251
og skip á hafinu, og altaf fanst mjer leið mín liggja lengra og lengra
upp í loftið, og svo langt var jeg kominn, að jeg eygði ekki lengur
neitt hjer á jörðunni. Þá þótti mjer loftið svalara.
Áður en jeg áttaði mig, var jeg kominn að stafni húss nokkurs, er
mjer virtist vera bygt úr gleri, og fanst mjer húsið standa í loftinu.
Áleit jeg, að hús þetta væri bygt úr hugarafli, því í svefninum mundi
jeg eftir ýmsum bókum, er jeg hefi lesið um andleg efni. Stærð
hússins virtist mjer svo mikil, að jeg sá ekki, hvar það tók enda.
Þegar jeg var búinn að stanza þarna dálitla stund, fanst mjer hlið
hússins lyftast upp og fólksfjöldi streyma inn, svo mikill, að nær
mundi óteljandi. Ekkert þekti jeg af þessu fólki. En mjer fanst þetta
fólk svífa án vængja eins og jeg sjálfur á þessu augnabliki. Fólk þetta
stóð í mörgum röðum. Mjer fanst jeg altaf standa í sömu sporum. Í
sal þessum sá jeg tvö borð stór. að borðum þessum gengu 2 menn
og báru sína bókina hvor. Bækur þessar voru stórar, sem mundu
vera á stærð við Flateyjarbók hina nýju. Í bókum þessum voru
gyltir stafir, og menn þeir tveir, er jeg gat um, fanst mjer að mundu
bera af öllum þeim hóp. Fólkið talaði ekki orð, en margir gengu til
þeirra manna, sem höfðu bækurnar, og þá flettu þeir bókunum og
var að sjá sem hver ætti þar sína opnu í bókinni. Síðan voru borðin
tekin og mennirnir 2 fóru, og þá fanst mjer hlið hússins ljúkast upp
á sama hátt og þá er fólkið kom inn. Fanst mjer fólkið leggja af stað
í suðurátt, og um leið hvarf húsið sjónum mínum. Mjer fanst jeg
vera nú miklu sælli en í byrjun draumsins. Jeg klauf loftið niður á
við. Fyrst sá jeg ekkert til jarðarinnar. En að lokum kom jeg á sömu
„sjónarhæðina“ aftur. Þá fór jeg að hugsa um stefnuna heim, en við
það vaknaði jeg og þá var draumnum lokið.56
Með því að senda þennan draum er Drauma-Jói ef til vill að bæta upp skort-
inn á sönnunum er kemur að tilvist sálarinnar og framhaldslífi hennar, og
Ágúst, sem kemur efninu í blaðið, virðist kunna að meta viðleitnina. En þeir
vita báðir að draumurinn hefur ekkert sönnunargildi. Drauma-Jói segir eftir
að hafa rakið hann: „Þennan draum segi ég meira mjer til gamans, en ég
búist við, að hann hafi nokkurt vísindalegt gildi.“
Á eftir svifdrauminum koma þrír draumar sem eru hefðbundnir tapað/
fundið Drauma-Jóa draumar um að finna glataða lykla, draumar sem gefa til
56 Ágúst H. Bjarnason, „Skemtilegt sendibrjef frá DRaUMa-JÓa“, bls. 228–229.