Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 76
AFGERANDI AUGNABLIK
79
þurfum við að vera fær um að standa í tveimur heimum samtímis, heimi
raunarinnar og heimi raunveruleikans. Við þurfum á táknunum, mynd-
unum og orðunum að halda til að vera fær um að nálgast raunina sjálfa
en um leið verðum við að gæta okkar á því að missa ekki sjónar á því sem
liggur þessu öllu til grundvallar, rauninni sjálfri og upplifun okkar af henni.
Sá sem lifir aðeins í draumi lifir ekki af, ekki frekar en sá sem neitar sér um
drauminn.
Þrátt fyrir, eða ef til vill vegna þess, að ég lokaði augunum í hvert sinn
sem hryllingurinn varð of ágengur, hvort sem það var þegar barnslíkaminn
snerti jörðina, þegar konan skar af sér snípinn eða þegar blóðið draup úr lim
eiginmannsins, tókst mér að sjá í gegnum hryllinginn og átta mig á að And-
kristur er fyrst og fremst draumkennd táknsaga um tráma, losun, úrvinnslu
og afgerandi augnablik sem geta yfirtekið líf okkar. Þar af leiðandi gerir
hún okkur kleift að skoða trámað úr fjarlægð. Í kvikmyndinni nálgumst við
trámað á vitsmunalegan hátt, í gegnum blæju tákna og mynda. Í kvikmynd-
inni verður veruleikinn sjálfur aldrei of ágengur. Við getum alltaf lokað aug-
unum, litið undan, ef raunin byrjar að soga okkur til sín.
Ú T D R Á T T U R
Í greininni er fjallað um hvernig líta megi á kvikmynd Lars von Trier, Andkrist (Anti-
christ, 2009), sem listræna birtingarmynd þess ferlis sem fer í gang þegar einstakling-
ur upplifir tráma en komið er í veg fyrir að sorgarúrvinnsla geti átt sér stað. Kenn-
ingum Sigmund Freud um tráma og ólík stig losunar og úrvinnslu sem einstaklingur
fer í gegnum eftir trámatíska upplifun er beitt við greiningu á kvikmyndinni, sem og
kenningum Jacques Lacan um greinarmuninn á raun (fr. le réel) og raunveruleika (fr.
la réalité). Þessar kenningar sálgreiningarinnar eru settar í samhengi við skrif heim-
spekinganna Henri Bergson og Pauls Ricoeur um minningar og þann greinarmun
sem fyrirbærafræðin hefur gert á upplifun og reynslu. Þessi greinarmunur varðar
meðal annars hæfileika mannsins til að beita táknum og myndum til að halda hinu
trámatíska augnabliki í skefjum, eða með öðrum orðum að nota táknkerfi menn-
ingarinnar til að horfast í augu við raunina sjálfa og finna leið til að halda henni í
skefjum. Með vísun í þessar kenningar eru færð rök fyrir því að gagnlegt sé að skoða
kvikmyndina Andkrist sem táknsögu sem geri hið trámatíska viðráðanlegt, á sama
tíma og hún fjallar um það sem getur mögulega gerst ef haldið er aftur af þörf þess
sem orðið hefur fyrir tráma til að snúa aftur til hins afgerandi augnabliks.
Lykilorð: Sálgreining, tráma, raun, minningar, úrvinnsla, Lars von Trier