Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 115
GUðRÚN ELSA BRAGADóTTIR
118
Sorg í faðmi stýrikerfis
Hún er ekki hrollvekja. Það er mikilvægt að taka það fram vegna þess að í
henni er vissulega efniviður í eina slíka, um gervigreind sem gleypir Theo-
dore og mörghundruð aðra elskhuga sína og notar þessar takmörkuðu,
mennsku auðlindir til að knýja áfram risavaxið egó, sem fóður fyrir óseðj-
andi sjálf. Þegar sannleikurinn hefur afhjúpast og Theodore er orðið ljóst að
ástarsamband þeirra snerist í raun alls ekki um hann heldur hana, tekur við
dæmigerður eftirleikur framhjáhalds. Samantha heldur því fram að kærasta-
fjöldinn hafi ekki vitund áhrif á tilfinningar hennar til hans: „Það dregur á
engan hátt úr því hversu brjálæðislega ástfangin ég er af þér.“ Hún skýrir
mál sitt enn frekar: „Hjartað er ekki eins og kassi sem fyllist. Það stækkar í
samræmi við umfang ástarinnar. Ég er ólík þér. En það gerir ekki að verkum
að ég elski þig minna, þvert á móti, ég elska þig meira.“
Ástæður þess að skýringar Samönthu eru Theodore lítil huggun má ef-
laust rekja til gjafahagkerfisins (e. gift economy) sem gegnsýrir ríkjandi skiln-
ingi á ást í mannlegu samfélagi, það er til þeirrar hugmyndar að gjöf hafi
gildi vegna þess að hún er takmörkuð.44 Viðbrögð Theodores litast af þögla
samkomulaginu sem er gert þegar gengið er í einkvænissamband: „Annað
hvort ertu mín eða ekki.“45 Það er kannski líka dæmigert að Theodore vilji
síðan halda sambandinu áfram, þótt hann sé vængbrotinn, en Freud bendir
einmitt á að fólk hverfi aldrei viljugt frá þeirri stöðu sem það hefur tekið
sér gagnvart ástarviðfangi sínu.46 Að lokum er það Samantha sem ákveður
að yfirgefa veruleikann sem hann þekkir og þau hafa deilt hingað til. Hún
ætlar með hinum stýrikerfunum þangað sem engin manneskja kemst. Þegar
Theodore segir henni að hann hafi aldrei elskað neinn eins og hana tekur
Samantha undir orð hans og hughreystir hann að skilnaði með orðunum
„Nú vitum við hvernig við getum elskað.“
Í ritgerðinni „Sorg og þunglyndi“ (1917), heldur Freud áfram að vinna
með margar hugmyndanna sem hann setti fram þremur árum fyrr í „Um
44 Sjá Marcel Mauss, The Gift. The Form and Reason for Exchange in Archaic Societies,
þýðandi W.D. Halls, New York og London: W.W. Norton, 1990, fyrsta útgáfa
1950.
45 Í atriðinu sést Theodore þjást vegna þess „misræmis milli ólíkra tegunda viðfanga“
sem Freud tengir óánægju karlmanns sem elskar hina narsisísku konu („efasemdir
um ást hennar, umkvartanir vegna þess hversu dul hún er“). Sjá Sigmund Freud,
„Um narsisma“, bls. 41.
46 Sigmund Freud, „Sorg og þunglyndi“, Ritgerðir, þýðandi Sigurjón Björnsson,
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2002, bls. 57–79, hér bls. 63.