Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 66
AFGERANDI AUGNABLIK
69
fyrirbærafræðingurinn Dan Zahavi orðar það: „Líkaminn er ekki skermur
milli mín og heimsins, heldur er hann frumlæg vera okkar í heiminum.
Það er í krafti hans sem við erum meðal hlutanna.“25 Aðgreiningin milli
veru og heims kemur þá ekki fyrr en eftir á, þegar sjálfsveran fer að beita
hugtökum og þekkingu til að greina sig frá því sem er. Þessi aðgreining er
ekki sjálfgefin og krefst þess að sjálfsveran greini á milli skynjunar sinnar
og þess hvernig hún hugsar um skynjun sína, krefst þess að hún breyti því
sem hún upplifir í reynslu, eða svo ég noti orð úr fyrirbærafræði Edmunds
Husserl, að hún breyti Erlebnis í Erfahrung.26 Upplifunin (þ. Erlebnis) er háð
því hvernig vitundarveran skynjar sjálfa sig og tengsl sín við veruleikann í
tíma og rúmi. Reynslan (þ. Erfahrung) verður til þegar vitundarveran yfir-
færir upplifun sína á hið táknræna, það er um leið og hún gefur upplifun
sinni ákveðna merkingu.
Til þess að sjálfsveran geti skilið sjálfa sig og aðra, og gefið lífi sínu merk-
ingu, verður hún að geta greint sjálfa sig frá upplifun sinni eða upplifað sig
sjálfa sem hinn, skoðað upplifun sína utan frá sem ákveðið ferli sem lýsa
má með orðum og táknum.27 Að vera fær um að skoða sjálfan sig sem hinn
tengist af þeim sökum ekki aðeins því að geta fundið til samlíðunar með
öðrum heldur einnig því að geta deilt reynslu sinni með öðrum. Til þess að
geta deilt reynslu okkar með öðrum verðum við að vera fær um að skoða
reynslu okkar utan frá. Við þurfum að gera þann greinarmun sem Henri
Bergson gerði á hreinu minni og myndbirtingarminni.28 Til þess að geta
endurvakið fortíðina sem mynd verðum við að vera fær um að gefa því sem
virðist merkingarlaust merkingu. Við verðum að nota ímyndaraflið til að
skapa merkingu og láta þannig hið merkingarlausa taka á sig mynd.29
25 Sama rit, bls. 66.
26 Sjá t.d. Zahavi, Fyrirbærafræði, bls. 69. Um greinarmuninn á upplifun og reynslu hef
ég áður fjallað í greininni „Magðalenukökur. Um fortíð og framtíð í sagnfræði sam-
tímans“ og þá í tengslum við skrif Walters Benjamin.
27 Sjá til dæmis Ricoeur, Memory, History, Forgetting, bls. 17.
28 Ég byggi umfjöllun mína að mestu á umfjöllun Ricoeurs um Bergson í enskri
þýðingu á bókinni Mémoire, l‘histoire, l‘oubli, það er Memory, History, Forgetting sem
vísað er til hér að framan. Í þeirri þýðingu eru hugtökin pure memory og memory
image notuð yfir hreint minni og myndbirtingarminni. Hugtakið memory image (fr.
mémoire image) er nokkuð erfitt í þýðingu. Bergson vísar með því bæði til mynd-
birtingarinnar, það er að eitthvað birtist sem mynd í huga okkar, og til ímyndunar-
aflsins. Þess vegna mætti ef til vill einnig þýða hugtakið sem ímyndar-minni.
29 Paul Ricoeur fjallar um þessar kenningar Bergsons á bls. 25 í Memory, History, For-
getting og aftur á bls. 51. Walter Benjamin hefur fjallað um aðgreiningu Bergsons á
hreinu minni og myndbirtingarminni í samanburði við þann greinarmun sem Mar-