Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 123
GUðRÚN ELSA BRAGADóTTIR
126
til staðar fyrir hann.58 Að þessu leyti er Hún, eins frumleg og myndin er, að
vinna með endurtekið stef í myndum um karlmenn í tilvistarkrísu.
Hún gæti þó líka talist niðurdrepandi mynd vegna þess að hún sýnir
hvernig þetta óhefðbundna ástarsamband, sem var að mörgu leyti ljúft –
þess vegna er myndin ánægjuleg áhorfs, ást Theodore og Samönthu hafði
sinn sjarma eins og allar góðar ástarsögur – misheppnast og niðurstaðan er
sú að við sitjum uppi með hefðbundna ást, sem hlýtur stundum að vera ófull-
nægjandi og gerir kröfu um málamiðlanir. Því kann að vera að lokaniður-
staða myndarinnar sé álíka fráhrindandi og mörgum þykja eflaust kenningar
Freuds um ástina: að skortur sé nauðsynlegur í ástarsamböndum en lykillinn
sé að samþykkja skortinn og njóta hans.
Ú T D R Á T T U R
Til tunglsins og til baka:
Takmarkalaus ást og gervigreindarmyndin
Með þróun gervigreindar undanfarna áratugi hafa dúkkur, vélmenni og forrit færst
sífellt nær því að leysa manneskjur af hólmi í persónulegum samskiptum. Ljóst er að
ýmiss konar tækni – allt frá stefnumótaforritum til ástarvélmenna – setur nú þegar
svip sinn á ástarsambönd í nútímasamfélögum og er jafnvel farin að hafa áhrif á það
hvernig við hugsum um ást. Í greininni eru kenningar Sigmunds Freuds um ást
skoðaðar í samhengi við gervigreind eins og hún birtist í vísindaskáldskaparmynd
Spike Jonze, Hún (Her, 2013). Leitast er við að stofna til eins konar samræðna milli
kvikmyndarinnar og hugmynda Freuds, með það að markmiði að varpa ljósi á hvort
tveggja. Sjónum er sérstaklega beint að hvatahagkerfinu sem Freud taldi einkenna
ástarsambönd og þeim áhrifum sem gervigreint ástarviðfang, sem er ekki sömu tak-
mörkunum háð og manneskjan, kann að hafa á upplifun mannsins sem elskar það.
Lykilorð: gervigreind, ást, sálgreining, hvatahagkerfi, vísindaskáldskaparmyndin
58 Frekari umfjöllun um „manic pixie dream girl“ má til dæmis finna í kafla eftir Mariu
Nilson: „A Magic Manic Pixie Dream Girl? Luna Lovegood and the Concept of
Postfeminism“, Cultural Politics in Harry Potter. Life, Death and the Politics of Fear, rit-
stjórar Rubén Jarazo-Álvarez og Pilar Alderete-Diez, New York: Routledge, 2020,
bls. 32–41, sjá hér bls. 33.