Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 58
AFGERANDI AUGNABLIK
61
fram að kvikmyndir Triers séu staðfesting á fasísku hugarfari hans.6
Þrátt fyrir að ég hafi verið hrifin af flestum myndum Triers var umræðan
í kringum kvikmyndina Andkrist þess eðlis að ég var ekki viss um að mig
langaði til að sjá hana. Umfjöllun í Fréttablaðinu var til dæmis svohljóðandi:
Antichrist var nýlega sýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto og á
einni sýningunni kastaði bíógestur upp á fólkið fyrir framan sig.
Kemur það ekki á óvart því í myndinni tekur kona upp á því að
merja kynfæri eiginmanns síns með viðardrumbi. Eftir það tekur
hún upp verkfæri, borar holu í gegnum kálfann á honum og festir
myllustein við legg hans. Skömmu síðar tekur konan upp skæri og
framkvæmir umskurð á sjálfri sér.7
Í framhaldinu er því lýst hvernig Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum ráðherra,
hafi gengið út af myndinni á kvikmyndasýningu í Reykjavík en eiginkona
hans, Bryndís Schram, hafi setið sem fastast. „Ég hellti í mig brennivíni
þegar ég kom heim, bara til að hrista upp í mér og fá doðann úr líkamanum,“
sagði Bryndís við blaðamann Fréttablaðsins. Þar með var myndin jörðuð og
afskrifuð sem „viðbjóður“ í ríkjandi umræðu.
Umfjöllun um kvikmyndina var víðar á svipuðum nótum. Í Svíþjóð skrif-
uðu sænsku blaðakonurnar og rithöfundarnir Maria Sveland og Katarine
Wennstam grein þar sem þær leitast við að sýna að Andkristur Triers fjalli
um það hvernig konan sem kynvera sé uppspretta alls ills og sé því ekki neitt
annað en útmálun á gamaldags kvenhatri.8 Gagnrýnandinn Mårten Blom-
kvist svaraði þessari grein og benti á að allt frá því að hin góðhjartaða Bess
var drepin með hrottafengnum hætti í Breaking the Waves hafi verið í „tísku“
6 Auk áðurnefndra greina og umfjöllunar um verk Lars von Triers má benda á að
Björn Ægir Norðfjörð skrifaði grein í vefritið Hugrás eftir uppákomuna í Cannes í
maí 2011 þar sem hann fjallar um það hvernig Lars von Trier hefur verið orðaður
við fasíska hugmyndafræði og jafnvel nasisma. Hann segir meðal annars: „Hver
sá sem þekkir kvikmyndir von Triers veit vel að stjórnmálaskoðanir hans (sem eru
heldur ekkert á huldu hefðu menn haft áhuga á að rifja þær upp) eru fullkomlega
á skjön við nasisma – og að honum er eflaust meira umhugað um mannréttindi
en flestum gestum Cannes hátíðarinnar.“ Sjá Björn Ægir Norðfjörð, „Vandræða-
gemlingurinn Lars von Trier“, sótt 26. október 2020 af http://hugras.is/2011/05/
vandraedagemlingurinn-lars-von-trier/.
7 „Gekk út af Antichrist á meðan Bryndís sat áfram“, Fréttablaðið, 15. september 2009,
bls. 26.
8 Maria Sveland og Katarina Wennstam, „Von Triers dogmatiska kvinnohat“, Dagens
Nyheter, 28. júlí 2009, sótt 25. mars 2021 af http://www.mariasveland.se/wp-con-
tent/uploads/2011/02/Inte-utan-mitt-kvinnohat-.pdf.