Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Síða 78
Dagný Kristjánsdóttir
Kóralína og mæður hennar
Um vandkvæði þess að skipta um
móður í Kóralínu eftir Neil Gaiman
Barna- og unglingabækur eru bókmenntasvið sem hefur alltaf öðru hvoru
vakið upp deilur, jafnvel siðferðilegt óðagot, ef höfundur er staðinn að til-
teknum boðskap eða skoðunum – og í framhaldi af því er deilt um hvort
bækur hans séu heppilegar eða hættulegar ungum lesendum. Slíkar deilur
hafa meðal annars leitt til þess að barna- og unglingabækur hafa lent á bann-
lista eða verið fjarlægðar úr bókasöfnum, til dæmis í Bandaríkjunum.1
Baráttan stendur um barnssálina. Það er sakleysi barnsins sem skal vernd-
að í lengstu lög og þess vegna skal höfundur ekki skrifa neitt sem gagnrýnir
foreldrar telja óæskilegt að börn lesi hverju sinni. Stundum eru það stjórn-
málaskoðanir höfunda en það geta líka verið umfjöllunarefni eins og kynlíf,
ofbeldi, dauði, mannvonska og fordómar. Með öðrum orðum þær hliðar
mannlífsins sem valda fullorðnum mestum áhyggjum og ótta. Til að vernda
börn gegn þessu hafa menn viljað ritskoða eða endurskrifa bókmenntaarf-
inn, gamlar sögur og ævintýri og fjarlægja þannig skoðanir, siði og venjur
sem forfeðurnir litu á með velþóknun.2
En það gæti orðið óvinnandi vegur að útrýma hrollvekjandi efni úr barna-
bókmenntaarfinum því það er samofið honum. Gömlu alþýðuævintýrin og
fyrstu listævintýrin á nítjándu öld voru full af ógn enda skrifuð bæði fyrir
börn og fullorðna. Barnabækurnar urðu til í framhaldi af listævintýrunum og
1 „Children’s Literature. Banned and Challenged Books“, California State University
Libraries, sótt 2. nóvember 2020 af https://csulb.libguides.com/childrens/banned.
2 Maria Tatar, Off With their Heads. Fairy Tales and the Culture of Childhood, Princeton,
New Jersey: Princeton University Press, 1992, bls. 3–4.
Ritið
1. tbl. 21. árg. 2021 (81-102)
Ritrýnd grein
© 2021 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar
og höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.21.1.5
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).