Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 57
SIGRÚN ALBA SIGURðARDóTTIR
60
daglegu lífi geta breyst. Trámatískur atburður veldur því að þau viðmið sem
við leggjum til grundvallar þegar við hugsum um veruleikann eru ekki leng-
ur til staðar, undirstöðunum er þannig kippt undan okkur, og við neyðumst
til að finna nýjar forsendur sem við getum hugsað um heiminn út frá.4 Oftar
en ekki eru aðalpersónur í myndum Triers ungar konur sem eru uppfullar
af ást til heimsins og vilja með góðmennsku sinni breyta því hvernig aðrir
hugsa og hegða sér.5 Góðmennska þeirra bíður nær undantekningarlaust
skipbrot sem er kannski aldrei eins áberandi eins og í Breaking the Waves
frá árinu 1996, eða þær neyðast til að horfast í augu við að í þeim býr ekki
aðeins góður vilji og fórnfýsi heldur einnig vilji til valds eins og í kvikmynd-
inni Manderley frá árinu 2005. Góðmennskan er þannig aldrei hreinræktuð
heldur ætíð samtvinnuð viljanum og viðleitni til að kúga aðra eða láta kúga
sig eins og í Dancer in the Dark frá árinu 2000. Trier tælir kvenpersónur
sínar út á ystu nöf (og í sumum tilvikum einnig leikkonurnar sem ljá þeim
líkama sinn og tilfinningar), við fylgjumst með þeim þjást og við þjáumst
jafnvel með þeim. Persónurnar missa fótfestuna og áhorfendur neyðast til
að endurskoða þær forsendur sem þeir gengu út frá þegar þeir nálguðust
listaverkið sem Trier býður þeim að taka þátt í. Þrátt fyrir að Trier láti jafnt
persónur sínar, leikara og áhorfendur þjást er það ekki þjáningin sjálf sem er
markmiðið. Trier virðist ekki láta okkur áhorfendur þjást til að brjóta okkur
niður heldur til að opna augu okkar fyrir því hvernig hið illa og hið góða
fléttast saman og hversu brothættar og umbreytanlegar þær forsendur eru
sem við göngum út frá hverju sinni. Í þeim skilningi er erfitt að halda því
4 Um tráma hef ég áður fjallað, meðal annars í Det traumatiske øjeblik. Fotografiet, dif-
férancen og mødet med virkeligheden, Kaupmannahöfn: Rævens Sorte Bibliotek, Forla-
get Politisk Revy, 2006. Bókmenntafræðingarnir Gunnþórunn Guðmundsdóttir og
Dagný Kristjánsdóttir hafa skrifað töluvert um tráma og bókmenntir. Sjá til dæmis
grein Gunnþórunnar „Tregðan í frásögninni. Yfir Ebrofljótið“ og grein Dagnýjar
„Sár. Um stríð, trámu og salamöndrur“ sem báðar birtust í ritgerðasafninu Rúnir:
Greinasafn um skáldskap og fræðistörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Guðni Elísson rit-
stýrði, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2010, bls. 129–141 og bls. 17–30. Sjá ennfremur
grein Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, „Blekking og minni. Binjamin Wilkomirski
og helfararfrásagnir“, Ritið 3/2006, bls. 39–51. Þá hafa fleiri höfundar fjallað um
tráma og íslenskar nútímabókmenntir, má þar nefna Bergljótu Soffíu Kristjáns-
dóttur, Guðrúnu Steinþórsdóttur, Daisy Naijmann, Öldu Björk Valdimarsdóttur og
Auði Aðalsteinsdóttur.
5 Annette Lassen hefur meðal annars fjallað um það hvernig Bess í Breaking the Waves
á sér hliðstæðu í kvenpersónum í ævintýrum H.C. Andersen þar sem konur líða
líkamlegar þjáningar og fórna sér fyrir ástvini sína. Sjá Annette Lassen, „Kynlífs-
píslir Bess í Breaking the Waves. Ævintýri á hvíta tjaldinu í anda H.C. Andersen“,
Ritið 1/2009, bls. 147–160.