Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Síða 48
LáTIð FLæðA
51
eru farvegur framleiðslu og langana, þær eru í eðli sínu skapandi og leita sér
útrásar, þær vilja tengjast og láta flæða og taka við flæði, framleiða og vera
framleiddar: „löngunin er hvar sem eitthvað flæðir og rennur“.45
á þennan hátt draga Deleuze og Guattari upp mynd af veruleikanum
sem ef til vill mætti (með ákveðnu skáldaleyfi) kenna við dælufræði dulvit-
undarinnar eða við sakleysi flæðisins. ákæra þeirra á hendur sálgreiningunni,
og sér í lagi Ödipusarlíkani hennar, er sú að hún gangi í lið með þeim kúg-
unaröflum sem þola ekki þann ógnarlega frelsismátt sem býr í dulvitundinni
og langanavélunum.46 Ógöngur Freuds í viðureigninni við þaðið skýrist af
þessu óþoli hans gagnvart sannleika óreiðunnar sem Freud kýs, meðvitað
eða ómeðvitað, að loka augunum fyrir eða skella skollaeyrum við.47 Frá
sjónarhóli Deleuze og Guattari má segja að vísindamaðurinn Freud, sem
leita vildi sannleikans fortakslaust og horfast í augu við hann, hafi látið í
minni pokann fyrir manneskjunni Freud, þeirri mannveru af holdi og blóði
sem hlotið hafði sína félagslegu skilyrðingu og skólun í því að skilja hvað
væri „húsum hæft“ og hvað ekki. Úr varð að þaðið mátti sæta bælingu af
hálfu yfirsjálfsins: hið frjálsa og saklausa flæði skyldi stöðvað, hamið og látið
storkna í formi Ödipusarlíkansins.
Í þessu samhengi er lærdómsríkt að huga að viðureign Freuds við geð-
ræna kvilla Daniels Pauls Schreber. Sá var mikilsvirtur dómsforseti í Sax-
landi þegar hann veiktist á geði um fertugt, náði sér að vísu aftur en hrakaði
svo verulega eftir 1893. Þaðan í frá var hann þjakaður af ofskynjunum og
ranghugmyndum, og dvaldi að mestu á geðsjúkrahúsum til æviloka árið
1911. Um aldamótin tók Schreber til við að rita endurminningar sínar, sem
voru öðrum þræði varnarrit ætlað til að sýna fram á heilbrigði hans, og það
var þetta rit sem vakti áhuga Freuds, og raunar margra annarra, á þessum
þjakaða manni. Freud hitti Schreber hins vegar aldrei. á dánarári Schrebers
birtist í vísindatímariti ritgerð eftir Freud þar sem reynt er að komast til
botns í veikindum hans með tækjum og tólum sálgreiningarinnar.48
45 Sama rit, bls. 124.
46 „Iðulega er litið svo á að Ödipus sé einfalt mál sem liggi ljóst fyrir. en þannig er það
ekki: Ödipus útheimtir stórkostlega bælingu langanavélanna. Og til hvers, í hvaða
tilgangi?“ (Sama rit, bls. 8).
47 Sbr. sama rit, bls. 64 og 141.
48 Ritgerðin heitir á frummálinu „Psychoanalytische Bemerkungen über einen auto-
biographisch beschriebenen Fall von Paranoia (Dementia paranoides)“ og má til
dæmis finna í Sigmund Freud, Studienausgabe VII. bindi, Frankfurt am Main: S.
Fischer Verlag, 1973, bls. 239–320. Íslensk þýðing er til í fjölriti og verður notast
við þá útgáfu hér: Sigmund Freud, Sálgreiningarathuganir á sjálfsævisögulegri frásögn
um vænisýki (Dementia paranoides), Sigurjón Björnsson þýddi, 2010.