Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Page 9
9
Uppeldi og menntun
16. árgangur 2. hefti, 2007
MARÍA STEINGRÍMSDÓTTIR
,,Ofsalega erfitt og rosalega gaman“1
Reynsla nýbrautskráðra kennara – aukin vinnugleði
Í greininni er fjallað um rannsókn á fyrsta starfsári nýbrautskráðra kennara. Markmið rann-
sóknarinnar var að varpa ljósi á reynslu og upplifun þeirra í íslensku skólaumhverfi, væntingar
til kennarastarfsins og reynslu þeirra af því. Þátttakendur voru átta nýbrautskráðir kennarar
frá Háskólanum á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Rannsóknin var viðtalsrannsókn og
þrjú viðtöl tekin við hvern þátttakanda. Niðurstöður benda til þess að eigi nýjum kennurum
að vegna vel í starfi þurfi þeir á mikilli leiðsögn og stuðningi að halda þegar út í það er komið.
Leiðsögnin þarf að taka til faglegra jafnt sem hagnýtra þátta starfsins en einnig ætti hún að
felast í handleiðslu sem styður kennarana og byggir þá upp gegn álagi og streitu í starfi. Niður-
stöðurnar eru í samræmi við erlendar rannsóknarniðurstöður.
INNGANGUR
Á síðari árum hefur skólamálaumræðan í þjóðfélaginu snúist um auknar kröfur á hendur
skólum og þeim sem þar starfa. Þær fela meðal annars í sér að þeir taki að sér stærri
hluta af því uppeldishlutverki sem heimilin gegndu að mestu leyti áður. Um leið hafa
foreldrar og forráðamenn vaxandi áhrif á skólastarf og menntun barna sinna.
Starf grunnskólakennara hefur tekið mið af þessu og breyst hin síðari ár. Í starfi
sínu þurfa þeir að vera tilbúnir til að sinna nemendum á mun víðtækari hátt en áður
var og ætlast er til þess að kennarar finni leiðir til að laga námið að mismunandi
þörfum nemenda. Tæknivæðing og aukið foreldrasamstarf hefur einnig breytt starfs-
umhverfi kennara og gert starf þeirra fjölþættara og flóknara. Það er því mikil og krefj-
andi vinna sem bíður kennara sem eru að fóta sig á nýjum starfsvettvangi og takast á
við sömu ábyrgð og reyndari samstarfsmenn þeirra.
Fyrsta starfsárið er mikilvægur tími í starfsferli kennara og hafa rannsóknir sýnt að
það hefur langtíma áhrif á skilvirkni og starfsánægju, sem og á það hversu lengi kenn-
ari endist í starfi (Feiman-Nemser, 1983). Reynsla þeirra á þessum tíma er álitin hafa
mótandi áhrif á starf þeirra til framtíðar (Bartell, 2005).
1 Greinin er byggð á hluta niðurstaðna úr meistaraprófsritgerð í menntunarfræði, með áherslu á
stjórnun, frá Háskólanum á Akureyri árið 2005. Margt er að læra og mörgu að sinna – Nýbrautskráðir
grunnskólakennarar á fyrsta starfsári; reynsla þeirra og líðan. Leiðbeinandi var dr. Ingólfur Ásgeir
Jóhannesson.