Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Síða 37
37
ANNA ÞÓRA BALDURSDÓTTIR, VALGERÐUR MAGNÚSDÓTTIR
búningsvinnu að sumrinu voru þannig að 28% töldu sig vinna færri en 6 daga, 30%
tilgreindu 6–10 daga, 24% nefndu 11–15 daga og 18% 16 daga eða fleiri. Flestir (32%)
notuðu undirbúningsvinnu að sumri mest til lestrar, 25% til að sækja námskeið, 23%
til skipulags og áætlanagerðar og aðrir til annars.
UMRÆÐA
Framangreindar niðurstöður um tilfinningaþrot eru á sama veg og í erlendum rann-
sóknum, og eru sá þáttur kulnunar sem virðist hafa mest áhrif (Burke og Greenglass,
1995; Maslach, Schaufeli og Leiter, 2001; Schaufeli og Bakker, 2004; Hakanen, Bakker
og Schaufeli, 2006). Hér er farið varlega í að túlka niðurstöður um hlutgervingu vegna
þess að þær eru, eins og aðrar íslenskar og evrópskar rannsóknarniðurstöður, ólíkar
niðurstöðum Maslach (Maslach, Schaufeli og Leiter, 2001; Anna Þóra Baldursdóttir,
2000; Rúnar Helgi Andrason og Sigurður Rafn A. Levy, 1992). Maslach og félagar
(2001) telja að um menningarlegan mismun geti verið að ræða. Í Bandaríkjunum er
einstaklingshyggja sterk og hlutgerving frekar sýnd en í evrópskum samfélögum sem
einkennast frekar af hópkennd. Ekki er ólíklegt að svo sé einnig hér á landi. Anna Þóra
Baldursdóttir (2000) veltir því sama fyrir sér; hvort um mismun á menningarheimum
geti verið að ræða, og jafnframt hvort verið geti að gagnsæi íslenskunnar og áhrif úr
kennaranámi geri það að verkum að kennarar líti á hlutgervingu sem löst sem erfitt
sé að játa á sig. Svipaðar niðurstöður Rúnars Helga Andrasonar og Sigurðar Rafns A.
Levy (1992) styðja þessar vangaveltur.
Fimm af starfsumhverfisþáttunum sex reynast hafa marktæk áhrif á tilfinninga-
þrot, þ.e. vinnuálag, umbun, starfssamfélag, sanngirni og gildismat, sá fyrsti verulega
meiri en hinir fjórir, sem eru áþekkir. Umbun, starfssamfélag, sanngirni og gildismat
hafa einnig marktæk áhrif á hlutgervingu samkvæmt þessum niðurstöðum. Aðeins
einn af starfsumhverfisþáttunum hefur áhrif á starfsárangur, og það er gildismat. At-
hygli vekur að sá þáttur hefur áhrif á alla þrjá undirþætti kulnunar og er sá eini sem
það gerir. Einnig vekur athygli að þátturinn sjálfræði hefur engin marktæk tengsl við
kulnunarþættina og því er hvorki að sjá að hann viðhaldi vinnugleði né valdi kulnun
hjá rannsóknarhópnum eins og Leiter og Maslach (2001) setja hann fram. Vera kann
að kennarar séu ekki uppteknir af því sem í þessum þætti felst, svo sem tækifærum til
að taka ákvarðanir og velja milli mismunandi möguleika, t.d. vegna þess að þeir eru
sáttir við hvernig að þeim málum er staðið.
Samkvæmt þessum niðurstöðum gefa starfsumhverfisþættirnir í líkani Maslach og
Leiter áhugaverðar vísbendingar um að starfsþreki kennara megi viðhalda og vinna
gegn tilfinningaþroti þeirra með viðráðanlegu vinnuálagi, að þeir upplifi umbun fyrir
starf sitt, að félagslegt innra umhverfi vinnustaðarins sé nægilega gott og að sann-
girni ríki á vinnustaðnum. Niðurstöðurnar gefa einnig vísbendingar um að það sé
mikilvægt í þessu samhengi að gildismat kennara og skólans fari saman og ekki verði
misgengni milli persónulegra lífsskoðana þeirra og krafna starfsins. Rétt er að hafa í
huga að fylgnin er ekki sterk, svo forvitnilegt verður að vita hverju frekari rannsóknir
skila.