Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 171
171
HANNA RAGNARSDÓTTIR, HILDUR BLÖNDAL
Nemendahópurinn er ekki síst fjölbreyttur að því leyti að sumir hafa komið til Íslands
markvisst til að stunda nám, aðrir hafa komið vegna íslensks maka og enn aðrir hafa
komið til að stunda vinnu í upphafi en síðar ákveðið að stunda nám á Íslandi. Vegna
persónuverndarsjónarmiða er í dæmum úr viðtölum hér fyrir neðan almennt vísað í
þær heimsálfur sem viðmælendur koma frá, en upprunaland ekki tilgreint. Dæmi úr
viðtölum við skandinavíska þátttakendur eru þó þannig merkt vegna umræðu í grein-
inni um sérstöðu þeirra í skólanum.
HELSTU NIÐURSTÖÐUR
Gott nám og góður skólaandi
Þátttakendur eru almennt ánægðir með námið í Kennaraháskóla Íslands og finnst þeir
hafa fengið góðar móttökur við upphaf náms. Þeir tala m.a. um góða samsetningu
náms og heildarskipulag, góðan skólaanda, persónulega þjónustu og heimilislegt um-
hverfi samanborið við aðra háskóla sem þeir þekkja til.
Stigveldi tungumála og þjóðerna
Í rannsókninni kemur glöggt fram ólík valdastaða og stigveldi (e. hierarchy) tungu-
mála og þjóðerna og hvernig íslenskukunnátta er notuð til að flokka nemendur og
meta þá að verðleikum. Dæmi um þetta eru viðbrögð sem þátttakendur hafa fengið
frá samnemendum, t.d. eftirfarandi setning sem amerísk kona nefnir að heyrist oft:
„You are diligent, you speak well“/„Þú ert dugleg, þú talar svo vel (íslensku)“.
Skandinavísk kona nefnir að það megi nánast raða erlendu nemendunum í virðingar-
þrep í skólanum eftir því hversu „útlenskir“ þeir eru. Þannig sé hægt að segja að Svíi
sé 50% útlendingur, Taílendingur 200%, Spánverji 150%. Þetta er mat hennar, byggt
á framkomu annarra nemenda og kennara við erlendu nemendurna, svo og stöðu
þeirra innan nemendahópsins.
Sjálfsmynd og staða
Í viðtölum við þátttakendur kemur skýrt fram að staða nemendanna virðist veikari
því ólíkari sem menning þeirra og uppruni er hinum íslenska. Þetta kemur fram í
því hvernig þátttakendur líta sig og stöðu sína innan KHÍ. Í viðtölum kemur fram að
nokkrir nemendur hafa brotna sjálfsmynd og þeir lýsa sérstaklega fyrsta árinu í KHÍ
með neikvæðum hætti. Staða skandinavísku nemendanna er áberandi betri og sjálfs-
mynd sterkari en hjá öðrum erlendum nemendum. Þó lýsa þeir því einnig að stund-
um sé erfitt að falla í hópinn en vera um leið í annarri stöðu en íslenskir nemendur.
Dæmi um lýsingu nemenda á eigin stöðu og sjálfsmynd eru m.a. eftirfarandi.
Evrópsk kona: „Ég er vesen.“
Í þessu dæmi er viðkomandi að benda á hvernig hún upplifir stöðu sína gagnvart
öðrum nemendum í hópavinnu. Henni finnst þátttaka sín vera aukið álag fyrir samnem-
endur. Fleiri dæmi úr viðtölum lýsa því hvernig nemendur upplifa stöðu sína í hópum: