Helgafell - 01.09.1944, Side 20
178
HELGAFELL
sérstöku vandaverki heldur en að flokkar þingsins útnefni pólitísk jámenni
til þess.
Það er bæði æskilegt og unnt að marka betur starfssvið framkvæmdar-
valdsins í nýju stjórnarskránni en nú er gert, enda gefst væntanlega tilefni
til að gera það á jákvæðari hátt. Ekki er þó ætlazt til, að tæmandi upptaln-
ing sé reynd. Á hinn bóginn er rétt að girða vel fyrir, að framkvæmdar-
valdið seilist inn á svið löggjafans. Þessu til tryggingar verður hin almenna
heimild dómstólanna til þess að skera úr ágreiningi um embættistakmörk
yfirvalda. En auk þess má vel setja fyrirmæli um það í stjórnarskrána, að
reglugerðir verði einungis settar samkv. lögum. Sennilega ætti að fella ah
gjörlega burt úr stjórnarskránni heimildina til að gefa út bráðabirgðalög,
eða a. m. k. setja greinilegri takmörk. Ákvæðið átti rétt á sér, þegar Alþingi
sat fáar vikur annaðhvert ár, en er orðið óþarft nú, þegar það situr á rök-
stólum mestallt árið, og hægt er að kveðja það saman með eins eða tveggja
daga fyrirvara. Það hefur líka komið í ljós, að stjórnir og einstakir ráð-
herrar hafa misnotað þessa heimild til þess að koma fram áformum, sem
ólíklegt er, að hefðu hlotið samþykki fyrirfram á Alþingi. Bráðabirgða-
fjárlög mun aldrei þurfa að setja.
Skýrar og framkvæmanlegar reglur þarf að setja um ábyrgð ráðherra
og annarra embættismanna, og um viðurlög fyrir afbrot í störfum og mis-
beitingu valds. Sérstaklega þarf að finna einfaldari aðferð til að koma fram
ábyrgð á hendur ráðherrum heldur en landsdóms- og ráðherraábyrgðarlögin
bjóða nú. Sú ósvinna, að dómsmálaráðherra skipi sjálfan sig í dómarasess
í Hæstarétti eða annars staðar, má ekki endurtaka sig.
Sjálfræði sveitarfélaga (þ. e. bæja, hreppa og sýslna), getur verið nauð-
synlegt að tryggja betur en nú er gert, einkum ef landið verður eitt kjördæmi.
Þó er sjálfsagt að gera ráð fyrir víðtæku samstarfi ríkisvaldsins og sveitar-
stjórna, svo sem um framfærslu, tryggingar, samgöngumál, skóla, heilbrigð-
ismál, skattamál o. s. frv. Hins vegar verður að girða fyrir óþarfa íhlutun,
og búa svo um, að dómstólar geti átt loka-úrskurðarvald um allan ágrein-
ing.
Menn eru stundum óánægðir með einhverjar aðgerðir ríkisstjórnarinn-
ar og annarra yfirvalda, án þess að athöfnin beinist að nokkrum sérstök-
um einstaklingi. Þegar þannig stendur á, verður nú yfirleitt ekki leitað til
dómstólanna, en þá gæti oft verið hentugt, að sá eigi sök, sem vill. Með
öðrum orðum: þeir, sem semja endanlega nýju stjórnarskrána, ættu að at-
huga, hvort ekki er fært að veita almenningi með einhverjum hætti aðstöðn
til að fá úrskurð dómstóla um atriði, sem alþjóð varða, þótt enginn sérstakur
eigi hlut að máli.