Helgafell - 01.09.1944, Síða 23
STEFNUSKRÁ LÝÐVELDISINS
181
virðingar landsins og trausts út á við, því að bein viðskipti við aðrar þjóðir
fara úr þessu vaxandi. Sératkvæði dómara skulu birt, en þess jafnan að öðru
leyti getið, hver hefur samið dóm Hæstaréttar og hversu háttað er stuðningi
hinna dómaranna við hann í heild eða einstök atriði.
Héraðsdómarar og hæstaréttar skulu hvorki vera alþingismenn né gegna
framkvæmdarvaldsstörfum. Þeir láta af embætti sextíu og fimm ára gamlir.
Dómstólarnir skulu einungis fara eftir stjórnarskránni og lögum, sem
henni eru samkvæm. Þeir skulu hafa úrskurðarvald um stjórnskipulegt gildi
löggjafar og lögmæti yfirvaldsráðstafana.
Meðdómendur, lærðir og leikir, taka þátt í störfum héraðsdóms, þar sem
lög ákveða.
V.
Hér að framan hefur verið drepið á ýmis atriði, sem rætt mun verða um,
þegar allsherjarendurskoðun stjórnarskrárinnar verður hafin. Ég hef leyft
mér að vona, að almenningi gefist kostur á að taka þátt í því starfi. Má ætla,
að stjórnmálaflokkarnir séu fúsir að láta þá von rætast að þessu sinni. Heppi-
legt væri, að stjórnarskrárnefnd sé skipuð ekki færri en tuttugu fulltrúum
ýmis konar stéttarsamtaka og stjórnmálaflokka. Hlutverk hennar yrði fyrst
í stað að leita tillagna frá sem allra flestum einstaklingum og félögum, en
beita sér jafnframt fyrir sem víðtækustum umræðum um málið meðal lands-
manna. í þessu skyni myndi nefndin láta flytja fræðandi erindi í útvarp.
Auk þess væri hyggilegt að senda menn til fyrirlestrahalds um landið. Þá
mætti og gefa út bæklinga, þar sem einstök atriði og tillögur væru skýrð
sérstaklega. Loks væri skynsamlegt, að unnu allýtarlegu undirbún-
ingsstarfi, að boða til nokkuð fjölskipaðs ráðgefandi þjóðfundar, er kosinn
væri lýðræðislegum kosningum. Ollum þessum undirbúningi yrði að hraða
svo, að frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga yrði tilbúið eigi síðar en í árs-
lok 1945.
í þessari grein hefur ekki verið stungið upp á neinu, sem er ósanngjarnt
né óframkvæmanlegt í núverandi þjóðfélagsskipun okkar íslendinga. Fleir-
um mun þykja gengið of skammt en of langt í umbótakröfum. Þó myndi
sú skipun, sem hér er gert ráð fyrir, endast okkur til verulegra umbóta og
margháttaðra framfara um sinn. Og hún horfir öll í þá átt að efla efnalegt
og félagslegt öryggi almennings hér á landi og tryggja vaxandi menningu á
grundvelli framtakssemi og nýrra úrræða.
Ég tel ekki, að komizt verði hjá nokkrum deilum um einstök atriði í stjórn-
skipun landsins. En jafnvel þótt fast yrði deilt, má aldrei neitt skyggja á þann
heilaga sáttmála og einlæga ásetning íslendinga að halda áfram að lifa sem
órofa heild og sjálfstæð menningarþjóð í þessu landi.