Helgafell - 01.09.1944, Qupperneq 214
372
HELGAFELL
tjáningar hennar eru of bóklegs eðlis, til þess
að maður taki hana trúanlega, þegar til lengd-
ar lætur. Þó skal játað, að Atli er ekki óalgeng
persóna í verkalýðshreyfingunni á vissu stigi
þróunar hennar, og í lok leikritsins nær Sól-
rún reisn, sem hún hafði ekki áður (samtalið
við móður hennar). En orðaskipti persónanna
eru flest langdregin og sviplaus, brotna þeg-
ar mest á reynir (samtal Sólrúnar og föður
hennar í 1. þætti), og skortir þá snerpu, sem
nauðsynleg er leikriti af þessari gerð, þar sem
búnaður sviðsins er svo fábreyttur. Ein persóna
verður manni þó minnisstæð — Jófríður gamla
og samræður hennar við tengdadótturina.
Mér þykir það einnig mikill ókostur á leik-
ritinu, að höfundurinn dylgjar um það, að Atli
sé ekki sonur hans ,,Jóns Jónssonar**, heldur
í raun og veru höfðingjasonur. Af hverju má
verkalýðsforinginn ekki vera kynborinn sonur
stéttar sinnar? Mér finnst það vera ódýr tilraun
til að gera hann ljúffengari. En í öllum góð-
um ævintýrum er kotungurinn, sem eignast
konungsdótturina og ríkið að lokum, ósvikinn
sonur karls og kerlingar, og svo vildi ég, að
vinur minn Atli væri.
Sverrir Kristjánsson.
— og kennimeistari
af guðs náð
Kaj Munk: NIELS EBBESEN. Sjónleik-
ur í fimm þáttum. Jón Eyþórsson sneri
á íslenzku. Utgefendur: Frie Danske i Is-
land. 1944. Verð: kr. 25—.
Kaj Munk, prestur í Vedersö í Danmörku, er
án efa einhver glæsilegasti leikritahöfundur
Dana, síðan Oehlenschláger leið. Leikrit þessa
unga strangtrúaða prests vöktu snemma mikla
athygli í Danmörku, og engum, sem blaðað hef-
ur í þeim eða séð þau, fær dulizt, að þar er ó-
venjulegur maður á ferð, gæddur listrænni
dirfsku, sem fáum er gefin. Leikhúsgestir, sem
sáu Orðið, munu seint gleyma handtökum hans,
er hann setti Lazarusarsögu biblíunnar á svið
í nýjum búningi. Mér er Kaj Munk minnisstæð-
ur fyrir Veiðibréf hans, sem hann skrifaði í eitt
helzta málgagn danskra íhaldsmanna, Dagens
Nyheder, fyrir nokkrum árum. Kaj Munk var
hægri maður, og hann virtist um skeið vera
veikur á svellinu fyrir fasistaleiðtogum álfunn-
ar, og má í því sambandi minna á bréf það,
sem klerkurinn í Vedersö skrifaði Mússolíni
hér á árunum, mig minnir á dögum Abessin-
íustyrjaldarinnar. Ræfildómur lýðræðisríkjanna
á árunum fyrir þessa heimsstyrjöld var slíkur,
hin svokallaða vestræna menning var orðin svo
geld, að margir einlægir gáfumenn glöptust á
að líta vonaraugum til leiðtoga fasismans: En
þessir sömu leiðtogar komu brátt vitinu fyrir
þá, og Kaj Munk varð einna fyrstur danskra
manna til að hefja upp raust sína gegn harð-
stjórunum. Leikrit hans, Niels Ebbesen, er einn
þáttur í þessari frelsisbaráttu, sem lauk með því,
að hann var myrtur af nazistum.
Embætti Kaj Munks gaf honum ekki færi á
að heyja þessa baráttu nema með vopni orðs-
ins, en oft mun hann hafa harmað það, að hann
fékk ekki beitt skeleggari vopnum. í leikritinu
klæðist hann sjálfur búnaði víndrukkins klerks,
séra Lorens, sem er ein glæsilegasta persóna
leikritsins. Þegar Niels Ebbesen spyr klerkinn,
hvort hann hafi talað við Gert greifa á réttan
hátt, svarar séra Lorens: ,,Nei, því ég talaði
með tungunni í mér. En það er aðeins eitt
tungumál, sem hann skilur: Mál sverðsins“.
. . . Og hann getur ekki fyrirgefið sjálfum sér,
að hann skuli ekki hafa flett þessum svarta fífla-
kufli af sér og klæðzt ærlegum herklæðum.
Niels Ebbesen, riddari í Norður-Hrísum, hef-
ur oft orðið dönskum skáldum að yrkisefni og
er rómaður í dönskum þjóðkvæðum. í vitund
dönsku þjóðarinnar stafar af honum ljóma þjóð-
hetjunnar, og Kaj Munk gat ekki valið heppi-
legri mann í aðalpersónu leikrits, sem vera átti
víghvöt til dönsku þjóðarinnar um að hefjast
handa og veita viðnám. Allir Danir skildu, hvað
við var átt, er Niels Ebbesen var nefndur.
Slíkar þjóðhetjur skólabóka verða að vísu nokk-
uð slitnar, þegar fram í sækir, en Kaj Munk
tekst að skapa úr alþýðlegu efni listaverk, sem
er um leið hárbeitt vopn. Hann gerir ekki Niels
Ebbesen að ,,hetju“ í venjulegum skilningi þess
orðs. Niels Ebbesen er hin danska þjóð, frið-
samur og seinþreyttur til vandræða, óðalsbóndi,
sem ann skurðgreftri, kornyrkju og svínakyn-
bótum meir en hernaði. Þegar ,,úlfurinn hefur
brotizt aftur inn í girðinguna og drepið tvær
kindur“, ætlar Niels Ebbesen að setja þar upp
hræður, því að hundurinn ,,dillar rófunni, þeg-
ar hann sér úlfana, og svo étur hann leifar
þeirra“, eins og Kaj Munk segir biturt um for-
vígismenn þjóðarinnar. Það er ekki fyrr en Gert
greifi ætlar að neyða vinnumenn hans og leigu-
liða í her sinn, að Niels Ebbesen ríður á fund