Tímarit Máls og menningar - 01.12.1975, Blaðsíða 10
Tímarit Máls og menningar
vísindalegar kenningar væru sannaðar kenningar. Menn greindi að vísu á
um hvort vísindaleg vissa væri reist á skynsemisrökum eða reynslurökum.
En trúin á vissu og sannanir var sem slík hafin yfir allan efa.4 Jafnvel
annar eins raunhyggjumaður og efasemdamaður og David Hume kallar
eðlisfræði Newtons að jafnaði „vísindi vissu eða sannana“.5
Þessi rótgróna trú á vissu og sannanir var að líkindum ein meginástæð-
an til þess að afstæðiskenning Einsteins, fáein reikningsdæmi á fáeinum
blaðsíðum, olli því fjaðrafoki sem raun bar vitni. Þar skiptu niðurstöður
Einsteins litlu á við þá einföldu staðreynd að kenning Newtons var nú
hrakin, eða öllu heldur að kenning Newtons reyndist aðeins vera kenning,
að sjálf náttúrulögmálin sem menn höfðu kallað reyndust vera einberar
tilgátur. Ein afleiðing þessara umskipta er sú að nú, eftir nokkra mæðu,
er varla sá upplýstur maður til sem trúir því að vísindaleg þekking á um-
heiminum sé eða geti verið sönnuð, að vísindalegar rannsóknir leiði eða
geti leitt til öruggra og eilífra sanninda.6 En hinir eru færri sem hugleitt
hafa hvort örlög hefðbundinnar eðlisfræði kunni ekki að hafa ýmsar aðrar
afleiðingar fyrir tilraunir manna til að mynda sér skynsamlega skoðun á
sjálfum sér og heiminum sem þeir byggja. Þótt ekki væri annað kynnu
menn að vilja hugleiða afleiðingarnar fyrir það sem kalla mætti siðfræði
vísindanna. Ef við getum ekki höndlað sannleikann, til hvers erum við þá
að iðka vísindi? Vegna tækninnar og framfaranna, mundu sumir segja.
Eru þá uppþvottavélar og atómsprengjur hin æðstu verðmæti? Er askfylli
einasta réttlæting bókvitsins?
Mér virðist eins og mörgum öðrum sem hér sé nokkuð í húfi, jafnvel
þótt ekki væri annað. Og ég tel eins og margir aðrir að einum manni beri
öðrum fremur heiðurinn af því að hafa brugðizt við þessum vanda af lær-
dómi og skarpskyggni. Sá maður er Sir Karl Popper sem nú hefur nýlega
látið af kennaraembætti í rökfræði og vísindalegri aðferðarfræði við Hag-
fræðiskólann í Lundúnum, einn frumlegasti og mikilvirkasti höfundur ald-
arinnar um heimspeki vísindanna sem svo er nefnd.
Þess er auðvitað enginn kostur að ég reyni að gera grein fyrir allri
kenningu Poppers á þessari stuttu stund. Kenningin snýst að miklu leyti
um tæknileg atriði, og á mörgum þeirra, til að mynda líkindarökfræði,
hef ég naumast snefil af viti. En ég þarf ekki að biðjast forláts á afmörkun
efnisins fyrir háskólakennurum - sem vita að fyrirlestrar voru ekki ein-
ungis fundnir upp til að þeir geti látið eitt og annað vaða sem þeir eru
engir menn til að standa við, heldur líka til þess að þeir geti svalað þörf
248