Tímarit Máls og menningar - 01.12.1975, Blaðsíða 14
Tímarit Máls og menningar
ímyndanir mannlegs hugvits, sem reistar eru á tiltölulega lítilfjörlegum
grunni upplýsinga um staðreyndir. Og þetta kann mörgum að virðast reyf-
aralegur boðskapur: eru vísindalegar kenningar þá ekki sannar eða að
minnsta kosti sennilegar? Koma þær ekki heim við staðreyndir? Eru þær
ekki áreiðanlegar, jafnvel áreiðanlegri en allar aðrar skoðanir? En hvernig
getum við reitt okkur á einberar tilgátur og ímyndanir? Er ætlunin að
leiða heilaspuna heimspekinga og hindurvitni trúarbragða til öndvegis á
ný, eftir að vísindin hafa með herkjum unnið bug á þeim ímyndunum
mannlegs hugvits?
Slíkum spurningum svarar Popper í fæstum orðum á þá leið að vissu-
Iega sé skynsamlegt að bera nokkurt traust til vísindalegrar niðurstöðu. En
ástæðan til þess er alls ekki sú að ótölulegur fjöldi staðreynda hafi verið
kannaður og komi heim við kenninguna eða bendi til hennar, kannski
svo eindregið að kenningin virðist óhrekjandi eins og eðlisfræði Newtons
virtist í hálfa þriðju öld. Astæðan er hin að sérhver réttnefnd vísindaleg
niðurstaða verður að hlíta því frumskilyrði, sem greinir hana frá öðrum
ímyndunum og getgátum, að hugsanlegt sé að hana megi hrekja eða af-
sanna. Og við getum því aðeins borið nokkurt traust til slíkrar kenningar,
svo sem afstæðiskenningarinnar, að við vitum að hún sé afsannanleg, að
gerðar hafi verið ákafar tilraunir til að hrekja hana eða afsanna og þessar
tilraunir hafi ekki tekizt þrátt fyrir góðan vilja. I íslenzkri þýðingu á bók
Alberts Einstein um kenningu sína er „Eftirmáli um staðfestingu afstæðis-
kenningarinnar á síðari árum“ eftir þá Þorstein Sæmundsson og Þorstein
Vilhjálmsson.12 I þessari yfirskrift þeirra nafna minna mundi Popper
greina áhrif raunhyggjunnar þótt í smáu sé. Þar er látið að því liggja að
staðfesting kenningarinnar sé höfuðatriði. En það skiptir engu, segði Popper.
Hitt skiptir öllu að kenningin hefur ekki verið hrakin, án þess þó að hún
sé óhrekjandi.
Samkvæmt þessu er tilgangur réttnefndra vísinda ekki sá sem raun-
hyggjan boðar: að komast á endanum að óhrekjandi niðurstöðum sem
komi heim og saman við allar staðreyndir. Tilgangur þeirra er miklu
fremur hinn að komast að hrekjanlegum niðurstöðum um tiltölulega fáar
og fábrotnar staðreyndir og reyna síðan allt sem í mannlegu valdi stendur
til að hrekja þær, að gera sem flestar villur á sem skemmstum tíma og
reyna að læra af hverri þeirra. Aðalsmerki vísindanna er fallvelti þeirra.
Og víkur nú sögunni aftur að gervivísindum: það er einkum þessi krafa
um fallvelti vísindalegra kenninga sem gervivísindi geta ekki talizt hlíta.
252