Tímarit Máls og menningar - 01.12.1975, Blaðsíða 22
Tímarit Máls og menningar
vísindi' (,normal science‘). Og það er lýsing hans á hefðbundnum vísind-
um sem er Popper og lærisveinum hans mestur þyrnir í augum.
I þessari lýsingu hefðbundinna vísinda kemur viðmiðshugtakið til sög-
unnar, og ber mér nú að víkja að því máli mínu. Ef bók Kuhns er vand-
lega lesin, eins og frú Margaret Masterman hefur lesið hana, þá kemur í
ijós að þetta höfuðhugtak hans má skilja tuttugu og einum skilningi.24
Þessar merkingar orðsins eru þó ekki allar ósamþýðanlegar og kannski
engar öldungis. Þeim má skipa í þrjá meginflokka. í fyrsta lagi eru viðmið
Kuhns það sem við mundum kalla hugmyndaheima á borð við hugmynda-
heim Newtons sem á var minnzt: þennan skilning orðsins getum við
kallað hugsunarfræðilegan skilning þess. í öðru lagi skilur Kuhn orðið
félagsfræðilegum skilningi: viðmiðin eru þá stofnanir í hinum víða skiln-
ingi orðsins sem alkunnur er úr félagsfræðum. I þriðja lagi leggur Kuhn
mjög hlutbundna merkingu í orð sitt: sem dæmi um viðmið í þeirri merk-
ingu nefnir hann einstakar bækur á borð við Stœrðalögmál Newtons eða
þá kennslubækur eftir að þær komu til sögunnar, en líka til dæmis ákveðna
tækni svo sem beitingu Lavoisier á vogarskálum og aðra beitingu hvers
konar mælitækja. Viðmið í þessum hlutbundna skilningi eru mönnum til
fyrirmyndar í starfi: því má kannski segja að þessi skilningur orðsins sé
að nokkru leyti sálfræðilegur.
Þetta síðastnefnda hlutbundna viðmiðshugtak er að líkindum svolítið
nýstárlegra en hin. Það á til dæmis nokkurt erindi við söguritara bók-
mennta og lista. Eins og menn vita svífur flestöll bókmenntasaga og lista-
saga, að svo miklu leyti sem hún er ekki ártalaskrá og æviatriða, mjög í
lausu lofti. Listfræðingar tala mikið um stefnur og strauma, en þessar stefn-
ur og straumar eru sjaldnast annað en tilbúningur þeirra sjálfra til að setja
á bækur, sem allur þorri listamanna fyrri alda yrði furðu lostinn yfir ef
hann læsi. Að vísu hefur þetta breytzt nokkuð á okkar dögum þegar virð-
ingarleysið fyrir listinni veldur því að listfræðingar ráða einatt ferðinni:
svokallaðir listamenn réttlæta verk sín með tilvísun til stefna og strauma
- þetta er nútímalist, segja þeir, nýjasta nýtt - og koma sér um leið í mjúk-
inn hjá þeirri deild fjölmiðlanna sem kennir sig við gagnrýni. En hvað
um þetta: í stað þess að listfræðingar velti vöngum um stefnur og strauma
bendir Kuhn á þann kost að ef til vill megi leita samhengis í listasögu
með því að reyna að segja söguna sem sögu stælinga á fyllilega hlutbundn-
um fyrirmyndum: tilteknu málverki, hljómkviðu eða kvæði eða þá á ein-
260