Tímarit Máls og menningar - 01.12.1975, Blaðsíða 8
Tímarit Máls og menningar
lýkur, að vera dálítil tilraun til varnar fyrir vísindi, þá er vörnin sú ekki
vörn gegn ytri ógnum. Hún er ekki vörn gegn atvinnurekendum, stjórn-
málamönnum, blaðamönnum, jafnvel ekki gegn stúdentum. Hún er vörn
fyrir vísindi gegn svonefndum vísindamönnum.
Ef til vill leyfist mér að staldra stundarkorn við orðið ,vísindamaður‘
og það sem mér virðist vera ofnotkun þess á síðustu árum. Ég er eflaust
uppnæmari fyrir þeirri ofnotkun en ella væri vegna þess að sjálfur á ég
ekkert starfsheiti. Ég er enginn heimspekingur eins og stjórn þessa félags
hefur kallað mig í fundarboði, því ef þeir Platón og Aristóteles, Hume og
Kant, Husserl og Wittgenstein voru heimspekingar, þá er ég eitthvað allt
annað og minna. Og mér sýnist löngum að aðrir sérfræðingar af ýmsu tæi,
sem starfa á rannsóknastofum, í háskólum og víðar, ættu af svipuðum
ástæðum að hika við að kalla sjálfa sig ,vísindamenn‘. Það væri virðingar-
leysi fyrir vísindunum, einni helgustu arfleifð mannkynsins, að gera orðið
,vísindamaður‘ að starfsheiti, líkt og það er til marks um lítilsvirðingu
okkar daga á fögrum listum þegar orðið ,listamaður‘ er orðið að venjulegu
starfsheiti, þegar maður gengur í verklýðsfélag og heitir upp frá þeim degi
,listamaður‘ og jafnvel ,skapandi listamaður'. Með þeim afleiðingum í
þessu tilviki að orðið ,listamaður‘ verður réttilega að háðsyrði á vörum al-
mennings ef hann vill komast hjá því að tala jafnan um ,svokallaða lista-
menn‘ eða ,sjálfskipaða listamenn' þegar félaga í Bandalagi listamanna ber
á góma, og gleymir því ekki að til voru menn eins og Feidías, höfundur
Njálu og Schubert. Ef orðið ,vísindamaður‘ á að sæta áþekkum örlögum,
þá er ekkert því til fyrirstöðu að sjúkraliði sem rekur mæli í rass og færir
niðurstöðu mælingarinnar á blað, eða jafnvel á línurit, heiti ,vísindamaður‘
ekki síður en allur þorri háskólagenginna sérfræðinga. Og þá má búast við
að almenningur sjái að sér og taki að tala um ,svonefnda vísindamenn'
eins og ég gerði áðan, að minnsta kosti á meðan hann minnist þess að til
voru menn eins og Arkímedes, Galileo og Lavoisier.
Þetta orðaskak mitt kann að verða til þess eins að staðfesta fyrir yður
þá almennu skoðun að orðhengilsháttur sé atvinnusjúkdómur okkar sem
leggjum stund á heimspeki, þau fræði sem ég vil skilgreina sem sögulega
rannsókn og gagnrýni fáeinna frumhugtaka mannlegrar hugsunar og jafn-
vel nefna ,hugsunarfræði‘. Þessi almenna skoðun er reyndar ekki rétt: orð-
hengilsháttur er ekki atvinnusjúkdómur okkar, hann er atvinna okkar. En
orð eru til alls vís. Ef til vill lánast mér að sýna áður en ég þagna að það
sem nú er sagt um orð varðar ekki orðin tóm.
246