Tímarit Máls og menningar - 01.12.1975, Blaðsíða 74
Tímarit Máls og menn'tngar
vitleysa. En hann er ósamkvæmur sjálfum sér í því að um leið og hann
er að lýsa þessu yfir er hann sjálfur að semja skáldverk og ekki annað
sýnna en að hann sé að reyna að breyta til, að breyta dulúðinni í eitthvað
ljósara og skýrara. Það er jafnvel sýnilegt að hann leggur hart að sér við
þetta, brýtur heilann og vandar sig eftir megni. Lengsta ljóðið sem ég
þýddi, „Illt blóð“, er ekki síst dæmi um þetta breytta viðhorf, að ég hygg.
Það var greinilega ort af sárri reynslu, fullt af spurningum, beiskju, von-
brigðum og uppgjöf. Þar er hann í rauninni að endurmeta feril sinn og
stefnu. Hann hafði haldið sig ná yfirnáttúrlegu valdi (með Ijóðlistinni),
og sjá: allt hafði mistekist. En það er jafnframt í ósamræmi við yfirlýsta
ótrú hans á skáldskapnum að hann semur ekki Arstíð í víti aðeins sér til
hugarhægðar, heldur vill hann að verkið komi fyrir almenningssjónir,
annars hefði hann ekki látið prenta það á sinn kostnað eða móður sinnar,
og gildir einu þótt hann hirti ekki um að sjá um dreifingu á því þegar það
hafði verið prentað. Hann sendi að minnsta kosti vinum sínum eintök af
bókinni.
En Rimbaud gerði mönnum þann leiða grikk (Robert Montal segir að
hann hafi gert hann eingöngu vegna þess að hann var kominn af gelgju-
skeiðinu og orðinn fulltíða maður) að virðast vera samkvæmur sjálfum
sér með því að hverfa algerlega af sjónarsviði bókmenntamanna og gerast
að heita má andstæða þess sem hann hafði áður verið, gerast verslunar-
maður, reglusamur og sívinnandi En þá ber þess einnig að gæta að versl-
unarmennska hans var ekki hversdagslegt búðarloku- eða skrifstofustarf,
heldur fylgdi henni töluverð ævintýramennska og hættuferðir meðal heið-
inna þjóðflokka og herskárra á lítt könnuðum og ókönnuðum landsvæð-
um framandi heimsálfu.
Dulúðin, sem hann fékk skömm á í.skáldskap sínum, hvarf sem sé ekki
úr lífi hans, þótt hann segði skilið við bókmenntirnar, heldur loddi við
hann áfram í sjálfum lífsferli hans. Og kannski var það, þegar frá leið,
meginástæðan fyrir áhuga nýrra og nýrra kynslóða á honum. Þessi órói í
blóðinu (illa blóðinu?), þessar sveiflur í geðinu, uppreisnargirnin og
nautnalífið, síðan þögnin um skáldskapinn og fyrri félaga, þrældómurinn
og líklega flestar borgaralegar dyggðir, allt þetta og margt fleira hefur
gert hann að merkilegu sálfræðilegu fyrirbæri sem er eins merkilegt og
heillandi og frægustu persónur í Islendingasögum eða leikritum eftir
Shakespeare.
Og svo undarlegt sem það er, má finna ýmis sálfræðileg atriði tengd
312