Tímarit Máls og menningar - 01.12.1975, Blaðsíða 121
Hrafnkatla: sinnaskipti eða samfélagsskipan
viðhorfa, hversu vel eða illa sem honum tókst að lifa eftir boðorðunum.
Hrafnkell Freysgoði var ekki riddari, en að breyttu breytanda getur hið
sama átt við hann.
Að minni hyggju er Hrafnkels saga Freysgoða ekki kristin eða klerkleg
siðfræðileg dæmisaga í sama skilningi og Hermann Pálsson leggur í orðin;
eða öllu heldur tel ég ekki nauðsynlegt að gera ráð fyrir þessu til að kom-
ast til skilnings á verkinu. Hermann miðar raunar að miklu leyti í hug-
myndum sínum við það að sagan styðjist beinlínis við atburði úr samtíð
höfundarins og að hún lýsi nokkurri bölsýni hans. Þetta kann rétt að vera,
þótt það feli í sér næsta langan krók frá verkinu sjálfu; hvað sem um það
er þá er það ekki til umræðu hér.
Hins vegar verður ekki séð að slík reginbreyting verði á lífsviðhorfi og
breytni Hrafnkels að um „endurfæðingu“ sé að ræða frá kristnu siðfræði-
legu sjónarmiði og að saga hans geti þannig orðið að „dæmi“. Hermann
Pálsson telur að Hrafnkell hafi „iðrazt“ eftir dráp Einars, sjá t. d. Tímarit
Máls og menningar 1964, bls. 276. I sama riti segir Hermann: „Með
niðurlægingu sinni hefur hann afplánað fyrir afbrot sín og verður annar
og betri maður“ (bls. 283). Og í bók sinni, Siðfrœði Hrafnkels sögu, segir
Hermann: „... sagan lætur ekki nægja að herma frá viðbrögðum manna
við óförum Hrafnkels, heldur greinir hún frá þeim sinnaskiptum, sem
hann varð fyrir sjálfur“ (bls. 90). Nú fer því fjarri að ég vilji hafna þeim
röksemdum með öllu sem hér eru nefndar. Frekar mætti segja að spurt
væri um áherzlur. Kaþólskir miðaldamenn lögðu ekki sömu áherzlu á ein-
staklingssiðfræði og siðbótarmenn gerðu síðar. Eitt af deiluefnum kirkju-
deildanna var hin einstaklingsbundna mannlega ábyrgð andspænis guð-
dóminum. Miðaldakirkjan gerði fyllstu kröfur til þeirra sem voru „inn-
vígðir“, til klerka og klausturfólks, en veitti almenningi í staðinn nokkurn
„afslátt“ og var í þessu skyni soðin saman mikil fræðigrein í siðfræðinni.
Hrafnkell hefur endurskoðað afstöðu sína og bætt breytni sína eins og
fram gengur af sögunni sjálfri, en vafasamt er þó að um sé að ræða „endur-
fæðingu” eða hrein „sinnaskipti" eins og Hermann virðist telja. Að nokkru
leyti virðast mér skoðanir Hermanns hafa „litazt“ af sjónarmiðum sem
telja má yngri en það menningarumhverfi sem sagan er sprottin úr.
Ef um siðfræðilega dæmisögu væri að ræða í klerklegum stíl yrði að
gera ráð fyrir því að Hrafnkell ynni eitthvert það verk sem á einhvern
hátt miðaði beinlínis að aukinni dýrð Drottins og allra helzt að vegsemd
359