Tímarit Máls og menningar - 01.12.1975, Blaðsíða 36
Tímarit Máls og menningar
sem unnt var, helzt ekkert, en hins vegar hafði ég ekki viðnám fyrir
ágangi þessa græðgisfulla vaxtar, lífsins, og ég stækkaði eins og ég væri
ekki í búri, eins og ég hefði pláss í veröldu, og mér fannst ég fara að
þarfnast fleiri og fleiri hluta, einkum bóka. En það barst ekki mikið að
mér nema flíkur, að vísu óhenmgar og ónógar, og bækur þó nokkrar,
sem ég er ekki viss um að hafi verið bækur þó mér fyndist svo, svo áköf
sem ég var að kynnast veröldu þessari sem ég átti ekki samastað í nema
fyrir náð og miskunn. Þó voru þær bækur sem ég afsagði að telja til bóka,
en það voru þær sem biskupar og aðrir heldri menn höfðu í margar aldir
haldið að oss Islendingum væri mest þörf á að lesa og þýtt þær úr dönsku
handa oss, en áður höfðu þær verið þýddar á dönsku úr þýzku. Þetta voru
guðsorðabækurnar. Af þeim voru stórir kassar komnir út í pakkhús, og
þar grotnuðu þær niður af því að enginn vildi lesa þær. Það bárust einnig
inn á heimilið evangelisk smárit með myndum austan frá Indlandi, og æ
hvað mér leiddist þetta lesmál og æ hvað mig langaði að vita meira um
Indland. Seinna kom í mig sá dynmr að vilja fara til Indlands. Sú hefði
haft nokkuð að gera þangað í hitann og illa talandi mál landsins, auk ann-
ars. En Swami nokkur Vivekananda, sem nú kvað vera orðinn sálufélagi
Steins Steinars, sagði það land vera eitt á jörðu þar sem líft væri sál og
anda svo sem hann orðaði það.
Þó að það eigi heima í kaflanum um sjúkleikann að lýsa því hvernig
ég fór að því að flýja hann (en þó sat hann og simr enn), ætla ég samt að
geta þess hérna. Eg var ekki gömul þegar mér var orðið það Ijóst, að líf
mitt jafngilti sjúkdómi, og undan þeim sjúkdómi varð ekki komizt, en það
mátti bæta hann með einu móti: að bæta öðrum sjúkdómi við, sem þá
mátti kallast sjúkdómurinn í sjúkdóminum. Eg hef aldrei skilið það fólk
sem hatar sjúkdóma sína og vill ekki heyra þá nefnda, ég varð nefnilega
hálfvegis fegin þessu og hef líklega aldrei í alvöru kært mig um að sleppa,
og hvert átti ég að sleppa? Þetta má nú virðast vera í ósamræmi við það
sem ég skrifaði fyrir stuttu, að ég teldi mig vera borna til heilbrigði og
hamingju, en það er svo óralangt þangað, nauð á nauð ofan eins og þegar
horft er inn í spegla sem spegla hver annars myndir. Og samt sleppur
maður, — einhvernveginn. Eg hef lesið það einhversstaðar, að skepnu þessa,
mannskepnuna, fái ekkert hindrað, sízt hindranir. Eg hef einnig lesið um
drottningarmann nokkurn sem lognaðist útaf úr kvefi fertugur, af því að
öll ævi hans hafði verið gersamlega hindrunarlaus þangað til. Eg hef einnig
heyrt um Jesúm, sem hékk á krossi í miklum nauðum og dó, en reis upp
274