Tímarit Máls og menningar - 01.12.1975, Blaðsíða 58
Tímarit Máls og menningar
var ósköp hversdagslegt og snoturt, þar til fyrsta erindi sleppti. Við upp-
haf ofangreinds viðlags varð hrynjandin fjörugri og mishljómar létu á sér
kræla, sem vegna síendurtekinnar h-nótu bjuggu áheyrandann undir skipti
yfir í Fis-dúr. Og þegar kom út í orðið „dreymin“ hafði spennan náð há-
marki. En í stað þess að skipta yfir í Fis-dúr, gerðist það óvænta. Á einu
augabragði sviptist lagið yfir í F-dúr, og þessi tónskipti, sem fylgt var
eftir með notkun beggja fótstiga á atkvæðinu „lags“ í „lagsmenn", höfðu
óvenju sterka verkan. Þau komu eins og foss yfir taugarnar og hrísluðust
niður bakið með óvæntum hrolli. Þetta var árás, uppljóstrun, snögg og
grimmdarleg opinberun, fortjald sem rifnar í tvennt.
Og við þessa F-dúr tóna hætti Jakoby málflutningsmaður að dansa.
Hann stóð eins og negldur við gólfið, með báða vísifingur enn á lofti -
annan örlítið neðar en hinn. A-ið í „lagsmenn" hraut af vörum hans, og
meðan tónar píanósins dóu út, starði þessi grátbroslega fuglahræða með
framteygðu höfði niður í uppljómaðan salinn ... starði á þennan skraut-
búna manngrúa, þar sem hneykslunin skein af hverri brá. Hann starði á
öll þessi upplyftu, furðu lostnu andlit, í þessi hundruð af augum, sem
reikuðu milli hans og hjúanna við hljóðfærið - öll uppljómuð af sömu
óbifandi fullvissunni... Og meðan þessi óhugnanlega þögn ríkti í salnum,
héldu sístækkandi augu hans áfram að hvarfla milli áhorfenda og undir-
leikaranna við píanóið... En allt í einu virtist skilningsljómi breiðast yfir
andlit hans. Blóðið gusaðist fram í kinnarnar, sem urðu jafn rauðar og
silkikjóllinn á brjósti hans, en í næstu andrá bleikar eins og nár - og þessi
stóri, feiti maður steyptist kylliflatur á sviðið svo að brakaði í fjölunum.
Andartak ríkti áfram dauðakyrrð. Þá kváðu við skrækróma óp og það
varð ys og þys í salnum. Nokkrir framtakssamir menn, þar á meðal ungur
læknir, stukku upp á sviðið; tjaldið var látið falla.
Amra Jakoby og Alfreð Láutner sátu kyrr við hljóðfærið og sneru baki
hvort við öðru. Hann drúpti höfði eins og hann væri að hlusta á síðustu
tóna F-dúrsins, hún með sinn spörfuglsheila horfði tómlegu augnaráði
kringum sig, ófær að átta sig á hvað hafði gerst.
En andartaki síðar kom ungi læknirinn niður í salinn, smávaxinn gyð-
ingur með alvarlegt andlit og svartan hökutopp. Nokkrir gestir flykktust
um hann við dyrnar, en hann yppti aðeins öxlum og svaraði stutt:
„Lokið.“
Ingólfur Pálmason íslenskaði.
296