Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Blaðsíða 38
einstæðu ljósi á tiltekið skeið vestrænnar en þó sérstaklega enskrar sögu; að
mati Dasents svipaði lífinu á íslandi á tíundu öld til lífsins á Bretlandseyjum
á sama tíma.
Samanburður Dasents á Njálu og sagnfræðiritunum og aðrar viðlíka
athugasemdir miða að því að skapa þýðingunni ný textatengsl í stað þeirra
sem óhjákvæmilega glatast þegar texti er fluttur á milli menningarheima.
Framandi verk er gert kunnuglegt með því að jafna því við þekkt rit eða
hugmyndir. Þannig líkir Dasent Njálupersónum nokkrum sinnum við nafn-
togaðar forngrískar hetjur; Flosi Skeggjason er til að mynda kallaður íslensk-
ur Odysseifur.7 Slíkur samanburður helgast af almennum viðhorfum Breta
til forngrískrar menningar en er jafnframt hluti flókinnar umræðu sem átti
sér stað á nítjándu öld um kennslu fornmála. Dasent var þeirrar skoðunar
að þekking á norrænni tungu, jafnvel fremur en þekking á grísku og latínu,
væri hverjum menntuðum Breta nauðsynleg ef hann vildi þekkja til hlítar
sitt eigið tungumál og norrænan uppruna.8
Hetjubókmenntir Bandaríkjanna
{ stað þess að rekja lengra þræðina sem liggja á milli The Story ofBurnt Njal
og bresks samfélags á Viktoríutímanum langar mig að beina athyglinni að
nýju að Heroes of Iceland eftir Allen French. Hún er endurritun á eldri
þýðingu og flækir því frekar umræðu okkar um þýðingar og textatengsl. I
íyrsta lagi mætti ræða hér um glötuð textatengsl, það er tengingar milli
frumtextans og menningarheims íslenskra miðalda sem flestum bandarísk-
um lesendum voru framandi. Líkt og Dasent, leggur French nokkra áherslu
á að útskýra slík tengsl í inngangi, en hann fellir einnig burtu ýmis merki
þeirra í útgáfu sinni. Skýrasta dæmið um þetta er niðurfelling ættartalna í
Heroes of Iceland. Enda þótt French viðkenni að ættartölurnar hafi sögulegt
gildi og að þær hafi þjónað sínum tilgangi á miðöldum, kemst hann að þeirri
niðurstöðu að þær séu til óþurftar fýrir nútíma lesendur.9
í öðru lagi má huga að textatengslum The Heroes oflceland við The Story
of Burnt Njal. Fullyrðing Juliu Kristevu um að sérhver texti sé „upptaka og
umbreyting annars texta“ hæfir verki Allen French einkar vel. Texti hans er
í raun ekki annað en röð tilvitnana í þýðingu Dasents. Hér og þar hefur
French sleppt setningum, málsgreinum og jafnvel köflum og á stöku stað
hefur hann endurraðað efninu (frásögnin hefst á sögu Gunnars, hjúskapar-
saga Hallgerðar er ekki sögð fyrr en í öðrum kafla). Þessar breytingar miða
að því að gera söguna líkari þeim frásögnum sem bandarískir lesendur áttu
að venjast; útrýma endurtekningum og útúrdúrum og skerpa meginþráð
36
TMM 1995:4