Skírnir - 01.01.1947, Blaðsíða 96
94
Halldór J. Jónsson
Skírnir
formi. Wessel diktar upp nýja sögu, sem á lítið skylt við
leikritið, ef frá er talinn endirinn. Kvæðið kallar hann þó
Stellu og talar svo um þann, „sem skrifaði Stellu“, að
varla verður um villzt, við hvern er átt. Hann segist sjálf-
ur víkja frá fyrirmyndinni með þessum forsendum:
Hans Töi kun taaler lidt at slide paa,
Og det vist vilde ærgre ham,
Ifald han mig det bruge saae.
Inntak kvæðisins er í stuttu máli þetta: Hermaður að
nafni Benter og mærin Doris fella hugi saman. Þau hafa
ekki lengi notizt, þegar Benter er kallaður í stríð. Frændi
Dorisar hefur hug á henni og hyggur gott til glóðarinnar
að komast yfir hana í fjarveru Benters. Hann nær í bréf,
sem Benter hefur skrifað henni, stingur því undir stól og
falsar annað, þar sem henni er tilkynnt, að Benter hafi
fallið í stríðinu. Því næst falsar hann enn annað til Bent-
ers, þar sem honum er tjáð, að brottför hans hafi orðið
Doris um megn og hún sprungið af harmi. Benter ræðst í
hernað til að dreifa sorg sinni og týna lífi, ef svo vill verk-
ast, en Doris situr hnipin heima með ungan son þeirra
Benters. Að mörgum árum liðnum sá Benter unga mey,
sem minnti hann á Doris, og gekk að eiga hana. Þá var
það eitt sinn, að uppgjafahermaður kom til bæjarins, þar
sem Doris bjó. Hann sá piltinn og tók hann tali, því að
hann þóttist kenna á honum svipmót hershöfðingja síns,
en að sjálfsögðu hugði pilturinn föður sinn dauðan. Sagði
hann móður sinni frá þessu, og gerði hún þegar út njósnar-
mann til að komast á snoðir um hið sanna í málinu, og
kom sendimaður aftur þess vísari, að Benter væri lífs og
hvar hann væri niður kominn. Mæðginin skunduðu nú af
stað til fundar við Benter. I áfangastað hittu þau konu,
sem þau bundust miklum trúnaði. Er tal þeirra barst að
faðerni drengsins og Doris segir hið sanna, kemur í ljós,
að ókunna frúin er eiginkona Benters, en í sömu svifum
gengur hann í salinn. Endirinn er auðvitað sá, að Benter
gengur að eiga báðar konurnar. Þessu söguefni lætur