Skírnir - 01.01.1947, Blaðsíða 208
206
Einar Ól. Sveinsson
Skírnir
Skálmabæjarhraun. Yísast er, að þessir bæir séu ungir.
Auk þess eru nefndir tveir bæir: Dynskógar og Hafnar-
nes (raunar aðeins talað um fjöruna), og þegar alls er
gætt, vaknar grunur um, hvort margir bæir í Álftaveri
eða þar í grennd muni ótaldir..
Höfðabrekkumáldagi sá, sem fyrr var rætt ítarlega um,
virðist sýna, að Lágey hafi þá verið í eyði, en aldur hans
er engan veginn viss. Því miður sker Þykkvabæjarklaust-
ursmáldaginn 1340 ekki úr um þetta. Það verður ekki með
fullri vissu séð, hvort þar er byggt ból, því að um vetrar-
beit hrossa er talað og ekki annað. Sýnist mér því ekki
verða úr því skorið, hvenær þessi bær hafi farið í eyði,
en líklega hefur það þó gerzt á 14. öld.
Ætla má, að Dynskógar séu byggt ból 1340, þegar
klaustursmáldaginn er ritaður. Um þann bæ eru fleiri
heimildir. Hann er nefndur í mörgum Oddamáldögum. Þó
ekki í hinum forna máldaga, sem talinn er frá því um
1270. En í máldaganum, sem talinn er frá 1332, er talið
meðal skyldna til Odda: „Úr Dynskógum 10 fjórðunga
smjörs og 13 merkur og færa í Skóga fyrir veturnætur."
Þessu líkt stendur í máldaganum 1397 og 1480.x) Aftur
á móti er Dynskóga ekki getið í máldaganum 1553, en þar
segir raunar um matgjafir: „þar hafa til forna goldnar
verið . . . það sem nú fæst ekki“.1 2) — Dynskógar voru forð-
um bær Hrafns hafnarlykils landnámsmanns, sem hann
yfirgaf til að forðast jarðeldinn, sem hann sá fyrir. Þessi
bær er í sældargengi á 14. öld. Nú er þess að gæta, að
Dynskógar hafa staðið á hraunsvæði. Mjög má telja ólík-
legt, að hraun hafi farið yfir bæ Hrafns, en annar bær
með sama nafni verið reistur ofan á því hrauni t. d. 300
árum síðar. Eftir vanalegri venju hefði nýi bærinn heitið
öðru nafni. Nafninu mundi býlið hins vegar hafa getað
haldið, ef maður hefði reist bæ á tóftum Hrafns, og eins,
þótt bærinn hefði verið fluttur iítillega, ef byggðin féll
aldrei niður.
1) D. I. II 291, IV 73, VI 325.
2) D. I. XII 653.