Skírnir - 01.01.1947, Blaðsíða 128
126
Platón
Skírnir
til þess eru vítin að varast þau, að öðrum kosti gætum vér
átt á hættu nýja klofningu. Með aðstoð Erosar skulum
vér því kappkosta að sameinast vorri glötuðu helft, og færa
guðinum þakkir fyrir velgerðir hans.
5. Ræða Agaþóns. Það er álit Eryxímakkosar, að erfitt
muni reynast fyrir þá Agaþón og Sókrates að tala eftir
þessa ræðu Aristofanesar. Einkum og sér í lagi telur þó
Sókrates sína aðstöðu örðuga, því að Agaþón muni enn
margt vel mæla og sinn hlutur versna að sama skapi.
Agaþón gerir í upphafi síns máls grein fyrir því, hvern-
ig lofa skuli Eros. Fyrst beri að ganga úr skugga um eðli
og eiginleika guðsins (en það hafi fyrri ræðumenn van-
rækt að gera), síðan lofa blessun þá og velgerðir, sem frá
honum stafa.
Eiginleikum guðsins lýsir Agaþón svo, að hann sé feg-
urstur allra guðanna og því sælastur hinna sælu. Hann sé
og þeirra yngstur og næmastur, yndislega vel limaður og
fagur yfirlitum. Jafnframt sé hann og allra guðanna bezt-
ur; réttlæti, sjálfsagi og vizka séu rótgrónir undirstöðu-
eiginleikar hans.
Velgerðir Erosar séu fyrst og fremst í því fólgnar, að
hann ljái mönnunum og efli með þeim þá kosti, sem hann
sjálfur sé gæddur. Einkum beri að rekja friðsemd, ein-
drægni og prúðmannlega framgöngu til blessunarríkra
áhrifa hans. Hinn fegursti blómi skipulegra samtaka, sið-
menning og menntun, öðlist vöxt og viðgang fyrir mátt
hans. Niðurlag lofgerðar sinnar fellir Agaþón í skorður
bundins máls, stefja, sem þrungin eru hrifningu og til-
beiðslu.
Er hinn bezti rómur ger að máli hans.
Nú er komið að Sókratesi. Lýsir hann því þegar yfir,
að sér muni eigi unnt að tala, er svo málsnjallir menn hafi
rétt áður um efnið fjallað. Auk þess hafi hann komizt að
raun um, að hann hafi gert sér rangar hugmyndir um
það, hvernig lofræður ættu að vera. Hann hafi haldið, að
lofræðu ætti að sníða eftir mælisnúru sannleikans. En
eftir þeim ræðum að dæma, sem hann væri nú nýbúinn