Skírnir - 01.01.1947, Blaðsíða 195
Skírnir
Byggð á Mýrdalssandi
193
og sagt hún hefði ekkert óyndi haft. Þessi dæmi sýna, að
öllu því er vel hlíft, sem guð vill hlífa.“
Þetta eru merkustu heimildir frá síðari tímum um
byggð þessa, en eitt og annað af þessu má finna hjá öðr-
um rithöfundum 18. aldar, en óljósara. Þess má geta, að
Sveinn Pálsson virðist styðjast mjög við Jón Steingríms-
son, en hann bætir við, eftir að hafa sagt frá Dynskóga-
og Lágeyjarhverfum: „Auk þessara tveggja nefndu hverfa
eða byggða ganga munnmæli um heila kirkjusókn norðan
Hafurseyjar, milli hennar og jökulsins, þar sem ennþá
heita Nautadalir, er hafi eyðzt í fyrstu Kötlugosum.Höfða-
brekka átti forðum beitiland það, sem þar var eftir, en
síðan var það látið í skiptum til Þykkvabæjarklausturs
fyrir skógarhögg.“ *) Enga aðra heimild hef ég um þetta
og marka því ekki þessi munnmæli.
f ritum frá 19. öld kemur ekki fram mikið nýtt. í Riti
um jarðelda á fslandi (Rv. 1880) er að mestu farið eftir
Jóni Steingrímssyni. Frá Sturluhlaupi er sagt með líkum
hætti og sr. Jón gerir, en þó eru hér nokkrar viðbætur.
Sturla er hér sagður Arngrímsson. Um hann er sú sögn,
að hann hafi verið á Þorláksmessu á skemmulofti að sníða
húð til skæða handa fólki sínu fyrir hátíðina. Þá kom í
skemmuna skepna ein og sagði: „Gefðu mér á fæturna,
Sturla minn.“ Hann spurði, hvernig skæðin ættu að vera
í laginu. Var þá svarað: „Þau skulu vera kringlótt eins og
keraldsbotn og engin á þeim táin.“ Sturla fleygði þá skinn-
inu í þessa kind, og fór hún burt með. — Því er enn bætt
við sögnina um Sturlu, að hann hafi haldið lífi í barninu,
þegar hann var á jakanum, með því að skera af sér geir-
vörtur og láta barni'c sjúga. — Þetta er, ásamt frásögn-
um sr. Jóns, tekið upp í Þjóðsögur Jóns Þorkelssonar
(bls. 125-26).
Loks er að geta enn um skrána „Eyðibýli í Álftaveri“,
sem Jón Þorkelsson ritaði 12. febrúar 1918 eftir Stefáni
Einarssyni og lét prenta í 1. bindi Blöndu. Sú, ritsmíð
1) Sveinn Pálsson: Ferðabók 548. Sbr. 542—43.
13