Skírnir - 01.01.1947, Blaðsíða 169
Skírnir
Skáld og- landshagir á 16. öld
167
Magnúsi föst í hug með fleiri slíkum mútugjöfum til er-
lenda valdsins. Ósamþykki, skammsýni og valdabrask var
að leiða þjóðina í tortíming, og Magnús heitir á föður-
landsást manna að vinna heildinni gagn eftir mætti, unz
landið fái við það uppreisn.
Enginn veit, hvað miklu má
maðurinn orka, ef viljinn er,
hörmung landi hjálpa frá.
Að höndum eftirdæmið fer.
Magnús nefnir ekki harðæri til skýringar þjóðarfátækt-
inni, hefur ekki talið þau valda stórmiklu fremur en Skúli
Magnússon á sinni tíð. Sjálfur var hann fulltrúi innlendr-
ar valdsmannastéttar og ræðst því eigi beint á fjárplóg
hennar, heldtir konungs og þeirrar kirkju, sem fyrr var, en
lá nú fallin. Broddinum er því stefnt gegn konungsvaldinu
einu, þegar Magnús víkur að fjárkúgun. Ólög og illur
vani, sem hann nefnir, ná til verzlunarhátta með öðru, en
þó var það ekki fyrr en síðar, sem danska verzlunin varð
að meginhættu. Magnús er betur menntur en svo, að hann
trúi dularfullri syndarefsingarskýringu á ógæfu íslands,
og ekki er hann vonlaus um, að landsmenn sýni samtök og
dug og rétti sig þannig við. f mörgum mansöngvum rímn-
anna kemur hann að boðskap sínum um þetta og um nauð-
synjar almúgans.
Hér var að breiðast út eymd, sem hlauzt að nokkru af
framförum álfunnar og átti eftir að vaxa mjög sakir
framfaranna í höfuðborg ríkisins. Handan hafsins hillti
upp þessa Norðurálfumenning sem fyrirheit:
Þegar sólar birtu ber
á blankan turn og skíra gler,
á kvennaskara og' kóngaher,
kaupskip, segl og reiða,
guðvefspell og glæsta höll,
grænalund og sléttan völl,
steindan múr og strætin öll,
stál og lilju breiða . . .