Skírnir - 01.01.1947, Side 233
Skírnir
Ritfregnir
231
ur; hefði hann víða getað þjappað efninu betur saman að skað-
lausu. Bókin má því teljast aðgengileg til lestrar hverjum greindum
manni. Þó er eitt atriði í þessu sambandi, sem ég kemst ekki hjá að
minnast á: Það eru hin mörgu óþörfu nýyrði höfundar, sem í senn
gera bókina torlæsilegri og lýta hana. Ég nefni hér nokkur dæmi
þessa. Mæti, menntamæti o. s. frv. tel ég miklu óviðkunnanlegri orð
en gildi, menntagildi o. s. frv., enda eru hin siðarnefndu orð ávallt
notuð. Afleitlega kann ég við orðið megund, vaxtarmegund o. s. frv.,
sem höfundur bregður oft fyrir sig. Er engin þörf á slíku nýyrði,
þar sem íslenzk orð eru um þetta hugtak, svo sem hæfi, hæfileiki,
sem hverjum manni eru töm og hver maður skilur. Lifð tel ég ekki
gott orð yfir „Erlebnis“, „Oplevelse". Miklu betra virðist mér að
nota um það í þessari merkingu orðið reynslu. Orðið athyglisvekill
kann ég ekki heldur við, einkum þegar það er haft í fleirtölu eins
og höfundur gerir: athyglisveklar. Þjálla orð er athyglisvaki. Loks
vildi ég nefna orðin menntgjafi og menntþegi, sem höfundur notar
mjög oft. Þykja mér þau í senn óþörf, fara illa í íslenzku máli og
vera ranghugsuð, því að enginn þiggur mennt að gjöf, heldur verð-
ur að ávinna sér hana, eins og höfundur tekur einhvers staðar
fram.
Þrátt fyrir þessa smávægilegu galla, sem hér hefur verið bent á,
er bókin hin merkasta og ber vitni miklum lærdómi höfundar, alvöru
hans og áhuga. Hafi hann þökk fyrir hana. Hún á erindi til bæði
lærðra og leikra og verður án efa mikið lesin. — Allur frágangur
ritsins er vandaður, og hefur útgefandi ekkert sparað til þess að
gera það sem bezt úr garði.
Símon Jóh. Agústsson.