Skírnir - 01.01.1947, Blaðsíða 134
132
Platón
Skírnir
hið elskaða, en ekki það, sem elskar. Þess vegna, hygg eg,
þótti þér Eros undrafagur, því hið elskuverða er jafn-
framt hið sannfagra, fíngerða, fullkomna og farsælt telj-
andi; en hið elskandi er öðruvísi á sig komið og eitthvað
á þá leið, sem eg lýsti því.“
„Látum nú það vera svo, gestvina mín!“ sagði eg, „því
að prýðilega farast þér orð. Hvaða gagn gerir þá Eros
mönnunum, þar sem honum er þannig háttað?“
„Um það ætla eg nú þessu næst að reyna að fræða þig,
kæri Sókrates! Slíkur er nú ástarguðinn og þannig ætt-
aður og þessi ást, hún beinist, eins og þú segir, að hinu
fagra. Ef nú einhver legði fyrir okkur þessa spurningu:
Hvað er þá ástin á hinu fagra, kæri Sókrates og Díótíma?
en eg ætla að orða spurninguna ljósar: Hvað girnist sá,
sem girnist hið fagra?“
„Að honum hlotnist það,“ svaraði eg.
„En þetta svar,“ mælti hún ennfremur, „það útheimtir
enn svona lagaða spurningu: Hvað ber sá úr býtum, sem
hlýtur hið fagra?“
Eg svaraði, að þeirri spurningu gæti eg ekki leyst úr
almennilega.
„En ef nú einhver,“ mælti hún, „í stað hins fagra setti
hið góða og spyrði svona: Nú, nú, Sókrates! sá, sem girn-
ist hið góða, hvað girnist hann?“
„Að honum hlotnist það,“ svaraði eg.
„Og hvað ber sá úr býtum, sem hlýtur hið góða?“
„Þessu veitir mér allt hægar að svara,“ mælti eg. „Hann
verður sæll.“
„Því fyrir það að hafa eignazt hið góða, eru hinir sælu
sælir,“ mælti hún. „Og nú þarf hér ekki að hreyfa nýrri
spurningu um það, hvers vegna sá vilji sæll verða, sem
það vill, heldur virðist svar þetta reka á endahnútinn.“
„Rétt segir þú,“ mælti eg.
„Heldurðu nú, að þessi ósk og þessi girnd sé öllum
mönnum sameiginleg, og að allir girnist, að hið góða
hlotnist sér ávallt eða hvað?“