Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 45
46
Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur skrifað um ofbeldi gegn konum og
muninn á því hvernig karlar koma fram við konur eftir stéttum í forn-
aldarsögum annars vegar og þýddum sem frumsömdum riddarasögum
hins vegar3 og Sif Ríkharðsdóttir hefur rætt um tilfinningar og tilfinn-
ingalega forskrift í norrænum miðaldabókmenntum.4 Sagnadansar hafa
þó allmikla sérstöðu hvað varðar sjónarhorn og umfjöllunarefni sem skrif
þeirra allra draga í raun enn betur fram: sögusamúðin er mun fremur hjá
konum sagnadansanna en annarra bókmenntagreina og umfjöllunarefni
þeirra er oftast nær mjög kvenlægt. Og þótt frásagnarmáti kvæðanna sé
fremur hlutlægur og blátt áfram og um margt líkur öðrum kvæðagreinum
miðalda er skýr afstaða tekin gegn kynferðisofbeldi í stórum hluta þeirra –
en þó alls ekki öllum.
Í upphafi er rétt að fara nokkrum orðum um kvæðagreinina. Sagnadansar
eru fremur stutt og hnitmiðuð kvæði sem segja sögu, voru ævinlega sungin
og gengu manna á milli sem munnleg kvæðagrein.5 Þeir hverfast oftast um
einn ákveðinn atburð, sagt er frá aðdraganda hans og afleiðingum enda
hefur atburðurinn djúpstæð áhrif á það fólk sem sagt er frá. Þetta er sam-
eiginlegt sagnadönsum alls staðar þar sem þeir hafa tíðkast. Sagnadansar
nutu vinsælda um alla Evrópu á hámiðöldum og lengur, að minnsta kosti
í Norður-Evrópu. Víða hefur einnig verið stiginn við þá dans en ekki er
hægt að fullyrða að svo hafi verið alls staðar, enda eru einhver tilbrigði við
þessa meginlýsingu eftir svæðum.
Sagnadönsum á Norðurlöndum hefur gjarnan verið skipt í flokka
eftir umfjöllunarefni. Svend Grundtvig sem gaf út danska sagnadansa
um miðja 19. öld, Danmarks gamle Folkeviser (DgF),6 skipti þeim í meg-
indráttum í fernt: hetju- eða kappakvæði (d. kæmpeviser), kvæði byggð á
þjóðtrú og goðsögum (d. naturmytiske viser, legendeviser), söguleg kvæði
3 Aðalheiður Guðmundsdóttir, „“How Do You Know if it is Love or Lust?” On
Gender, Status, and Violence in Old Norse Literature“, Interfaces 2/2016, bls.
189–209.
4 Sif Ríkharðsdóttir, „Translating Emotion: Vocalisation and Embodiment in Yvain
and Ívens saga“, Emotions in Medieval Arthurian Literature: Body, Mind, Voice, ritstj.
Frank Brandsma, Carolyne Larrington og Corinne Saunders, Woodbridge, Suf-
fork: D.S. Brewer, 2015, bls. 161–179; Emotion in Old Norse Literature: Translations,
Voices, Contexts, Woodbridge, Suffork: Boydell & Brewer, 2017.
5 T.d. Gordon Hall Gerould, The Ballad of Tradition, Oxford: The Clarendon Press,
1932, bls. 3. Samkomulag virðist vera um skilgreiningu Geroulds og hún hefur lítið
breyst síðan hann setti hana fram.
6 Svend Grundtvig og fl., Danmarks gamle Folkeviser, Kaupmannahöfn: s.n., 1853–
1975.
IngIbjörg EyþórsdóttIr