Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 61
62
hafi gert það og gott betur, hún tekur að sér það karlmannsverk að taka
þátt í að drepa nauðgara sinn og að lokum er engu líkara en nauðgarar
framtíðarinnar séu varaðir við – þeir skuli draga lærdóm af þessu kvæði.
Helga Kress hefur skrifað áhugaverða grein þar sem hún tengir mál
Agnesar Magnúsdóttur sem var líflátin fyrir hlutdeild í morðinu á Natani
Ketilssyni árið 1828, orðfæri sagnadansa þar sem kynferðislegt ofbeldi er
til umfjöllunar og ekki síður hefndir kvennanna.41 Hún telur að líklega
hafi Natan nauðgað bæði henni og Sigríði sem var viðstödd morðið, þar
sem orðanotkun sem sjá má í lýsingum í málsskjölum er svipuð og í sagna-
dönsum. Hún bendir einnig á þann mun sem var á örlögum raunverulegra
kvenna sem gripu til þess úrræðis að taka nauðgara sína af lífi, og því
hversu létt kvenhetjur sagnadansanna komast frá sínum mannsmorðum.
Óhætt er að taka undir þetta og ljóst að óskhyggja ræður frekar örlögum
kóngsins og hinum kostulegu málalokum en það sem gerist við þessar
aðstæður í raunheimum.
„Enginn vill í ráðum vera, frúnni að veita sorg“
Í síðasta kvæðinu sem hér er gert að umtalsefni, Kvæði af Knúti í Borg og
Sveini kóngi,42 er atburðarásin ólík fyrri kvæðum. Knútur í Borg vill bjóða
Sveini kóngi að drekka vín með sér og brúði sinni, Kristínu. Henni líst illa
á það, en Knútur telur að það muni verða þeim í hag. Kóngurinn mætir
í brúðkaupið með her gráan fyrir járnum og menn hans spyrja hvort þeir
séu á leið í hernað. Sveinn kóngur heimtar að fá að sitja hjá brúðinni
og spyr hana: „Hvörsu mikið rauða gull/ skal eg gefa þér/ viljir þú frúin
Kristín/ játast mér?“ Kristín segist eiga bæði gull og fé og vill ekkert þiggja
frá honum. Kristín tekur þá að gráta á brúðarbekknum, enda fer það svo
að Sveinn kóngur slær brúðgumann, svo honum blæðir út. Áður en hann
deyr biður hann Kristínu að minnast sín fyrstu þrjár næturnar í örmum
kóngsins. Í beinu framhaldi er haldið brúðkaup Sveins kóngs og Kristínar.
„Lágu þau svo nætur tvær/ geymdi hún sig so gjörla/ en á þriðju nóttinni/
sveik hún hann so árla// Hún stakk undir hans herðablað/ svo oddurinn óð
í dúni“. Sveinn kóngur nær líka að segja nokkur orð við Kristínu áður en
hann deyr: „Heyrðu það sæla sætan mín,/ illa sveikstu mig/ það var ekki
vel gjört/ fyrst ég elskaði þig.“ Í framhaldi af því segist hann helst sjá eftir
41 Helga Kress, „Eftir hans skipun. Natansmál í ljósi sagnadansa og eftirmæla Agnes-
ar“, Saga 1/2014, bls. 99–118.
42 Vésteinn Ólason, Sagnadansar, bls. 236–241. Umfjöllun um kvæðið, The Traditional
Ballads of Iceland, bls. 239–246.
IngIbjörg EyþórsdóttIr