Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 103
105
m.ö.o. óvarlegt að halda því fram að myndun orðsins gleðikona staðfesti að
orðið gleðimaður hafi verið orðið ónothæft um konur á þeim tíma.
Fyrri liður samsettu orðanna gleðimaður og gleðikona er, eins og áður
sagði, nafnorðið gleði, og er það myndað á sama hátt og t.d. fræðimaður
‘lærdómsmaður’ þar sem no. fræði er fyrri liður. Hér er ekki um að ræða
orð með sagnstofn sem fyrri lið, eins og á t.d. við um orðið kennimaður
‘maður sem kennir’ og hrærivél ‘vél sem hrærir’. Ekki eru gleðimaður og
gleðikona heldur gerandnöfn af sama tagi og gleðispillir ‘sá sem spillir gleði’.
Sú túlkun kemur því ekki vel heim við orðmyndunina að gleðikona sé
„kona sem veitir manninum gleði“30 eða kallist þetta „af því að hún gleður
karlmanninn“.31 Orðið kann að vekja þær hugrenningar nú á dögum en
ekki eru líkur á að upphafleg merking orðsins hafi verið ‘kona sem gleður
(karlmann)’.
Merkingin ‘glaðlynd kona, kona gefin fyrir gleðskap’ kemur skýrt fram
í dæmum um orðið gleðikona frá 19. og 20. öld. Dæmi (5) frá 1878 er það
elsta á Tímarit.is:
sat hún þá í Parísarborg við glaum og skemtanir því að hún var
gleðikona mikil.32
Þarna er sagt frá síðari æviárum Maríu Kristínar Spánardrottningar og auð-
vitað ekki gefið í skyn að hún hafi stundað vændi. Orðið hefur verið notað
á sambærilegan hátt um íslenskar konur í frumsömdum íslenskum textum
eins og Ásta Svavarsdóttir sýndi með dæmum úr eftirmælum um íslenskar
konur sem finna má í Ritmálssafni.33 Merkingin ‘kvenkyns gleðimaður’ er
því ekki bundin við þýðingar eða endursagnir efnis á erlendum málum.
Í dæmi (6) úr Ritmálssafni kemur fram orðaparið gleðimenn og gleðikonur
um kynjablandaðan hóp.
að valinu á þessum bókum hefði ráðið maður, sem gaman hefði
af að lesa um gleðimenn og gleðikonur34
30 Tryggvi Gíslason, „Gleðimaður og gleðikona“, blog.is, 12. janúar 2012, sótt 18. mars
2018 af https://tryggvigislason.blog.is/blog/tryggvigislason/entry/1216756/.
31 Hildur Knútsdóttir, „Þegar tungumálið talar okkur“, Knúz – femínískt vefrit, 9. apríl
2013, sótt 18. mars 2018 af https://knuz.wordpress.com/2013/04/09/thegar-tungu-
malid-talar-okkur/.
32 Norðlingur 7–8/1878, dálkur 32.
33 Ásta Svavarsdóttir, „Gleðikonur og gleðimenn“, bls. 16.
34 Einar Hjörleifsson, Ofurefli: Saga, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1908, bls.
171.
GLEðiMEnn, GLEðiMEYJAR OG GLEðiKVEnnAFÉLAG VALLAHREPPS
(5)
(6)