Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 104
106
Þarna er sýnt svart á hvítu að bæði sé um karla og konur að ræða en ekki er
hægt að ráða af textanum að höfundur hafi ætlað sér að gefa í skyn annan
merkingarmun en mun á kynferði. Þótt ætla megi að fleirtalan gleðimenn
hafi á fyrri öldum átt við hópa með hvaða kynjasamsetningu sem er má
búast við að þeim sem talar eða skrifar geti þótt ástæða til að taka kynferð-
ið fram. Eins og áður sagði er líklegt að ýmis orð með síðari liðinn -kona
hafi verið mynduð í þeim tilgangi. Við það hefur notkunarsvið orðanna
sem enda á -maður breyst. Til dæmis má ætla að við innreið eintölunnar
gleðikona og fleirtölunnar gleðikonur hafi dregið úr því að orðið gleðimaður
væri notað um konu eða fleirtalan gleðimenn um kvennahóp.
Orðið gleðikona hefur auk þess orðið fyrir merkingarbreytingum. Við
hlið elstu merkingarinnar (A), ‘kvenkyns gleðimaður’, varð annars vegar
til merking (B), ‘léttúðardrós, lauslætisdrós’, og hins vegar merking (C),
‘vændiskona’. Merkingu (B) má telja niðrandi, eins og fram kemur af
dæmum um gleði-orð hér á eftir, og flokka þessa breytingu á merkingunni
sem niðrun (e. pejoration). Ef merking (C) er yngst og leidd af (B) má ef til
vill túlka breytinguna sem merkingarþrengingu (e. narrowing). Þá hefur
almennari merkingin ‘lauslætisdrós’ þrengst í sértækari merkinguna ‘laus-
lætisdrós sem tekur gjald’. Í merkingu (C) verður gleðikona starfsheiti og
textasamhengið þarf að skera úr um hvenær það er notað á niðrandi hátt.
Erfitt getur verið að skipa einstökum dæmum í einn þessara þriggja
flokka, m.a. elsta dæminu í kvæði Eggerts Ólafssonar, en af samhengi
má stundum ráða að heitið gleðikona sé neikvæður stimpill. Efni text-
anna og orðaval, t.d. sagnir og lýsingarorð í grenndinni, getur gefið
merkingarblæbrigði til kynna. Það á t.d. við um umsögn um Guðrúnu
Leogedariusdóttur (f. um 1630) sem sögð er „allræmd [svo] gleðikona“ í
„Búendatali Eyjafjarðar“.35 Hér bendir lo. alræmdur til þess að ekki sé talið
konunni til tekna að vera gleðikona.
Eins og fram kom hér að framan er vændismerkingin (C) trúlega yngst.
Við leit í Ritmálssafni, Íslensku textasafni og á Tímarit.is fundust ekki eldri
örugg dæmi um þá merkingu en frá þriðja áratug 20. aldar, þau elstu í
sendibréfi sem Þórbergur Þórðarson ritaði árið 1926; eitt þeirra er (7):
35 Íslendingabók (islendingabok.is) birtir þessa umsögn með færslunni um Guðrúnu
Leogedariusdóttur. Heimildin er Stefán Aðalsteinsson, „Búendatal Eyjafjarðar“
(óútgefið handrit merkt Héraðsskjalasafni Svarfdæla, Dalvík), Bók i, bls. 98–99.
Þetta dæmi um orðið gleðikona er því frá 20. öld. Ég þakka Kristrúnu Höllu
Helgadóttur sagnfræðingi, sérfræðingi hjá Íslenskri erfðagreiningu, fyrir aðstoð
við að finna þessa heimild.
Guðrún Þórhallsdóttir