Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 137
140
innra með sér, ljóri sálarinnar galopnaðist og von – hversu óljós sem hún
var – bærði á sér um að ekkert væri til einskis, allt merkti þetta eitthvað.“28
Færa má þó rök fyrir því að innan vébanda skáldsögunnar þjóni þessi vísun
til raunverulegs höfundar, og tengslin milli verka hans og bænastunda,
ekki síst því hlutverki að draga athyglina að ákveðnum hugmyndum um
skáldskap er fram komu á nítjándu öld og túlka má sem viðbragð við geng-
isfellingu kristinnar trúar og veraldarvæðingu samfélagsins.
Í húfi var sú fullvissa er tryggði aldagömul gildisviðmið; í fjarveru
hins guðlega var í raun ástæðulaust að ætla mannlegu samfélagi viðmið er
ekki væru tilfallandi. Andans menn frá Hegel á öndverðri nítjándu öld til
Matthew Arnolds á henni ofanverðri vildu í þessu sambandi líta til fagur-
bókmennta og ætla þeim hlutverk sem áður hafði verið falið trúarbrögðum,
að vera leiðbeinandi orðræða sem á einhvern hátt væri hafin yfir aðrar
orðræðutegundir, nærri dulspekileg í djúphygli sinni og innsýn í hlutskipti
mannsins. Sjálfum varð hugmyndasmiðunum sumum ljóst að bókmennt-
um væri hér ætlað um of, og ekki var hugmyndin alltaf færð bókstaflega
í orð þótt Hegel hafi t.a.m. gert það, en upphafning bókmenntalegrar
tjáningar naut þó brautargengis og enn má finna fyrir eftirköstum þessara
hugmynda.29 Það að Steinari Braga sé sjálfum lítt gefið um rómantískar
hugmyndir um skáldið sem sjáanda og miðil og noti tækifærið til að pota
í raunverulegt íslenskt skáld í því sambandi skiptir hins vegar minna máli
en spyrðing Kalmans Kötu við hugmyndafræðilegar formgerðir er tengjast
ákveðnum mannskilningi, dyggðum og réttlæti. Þegar Kata segir skilið við
þennan kafla í lífi sínu og gildisviðmiðin sem honum fylgja er rofið sett í
samhengi við höfundinn:, „Ég er of vond fyrir Kalman“, segir hún.30
Undir liggur ekki aðeins að bókmenntir séu óhjákvæmilega fastar í
venslum hugmyndafræði og valds, heldur hvers eðlis hugmyndafræðin sé
sem talað er fyrir. Algild gildi eru ekki endilega það sem málið snýst um,
a.m.k. ekki ef sá skilningur er í þau lagður að þau sæki trúverðugleika sinn
út fyrir sviptivindasaman raunheiminn – heldur hræsni því að í fjarveru
trúarlegrar staðfestingar er hægt að skilgreina manngildishugsjónir sem
formleg viðmið sem svo endurspeglast í lagabókstaf eða sáttmálum þjóða
á milli, en eru í eðli sínu eilíft uppkast. Hér verður sett fram sú tilgáta
28 Steinar Bragi, Kata, bls. 24.
29 Um vangaveltur Hegels um það hvort guðsmyndina mætti finna í fagurbókmennt-
um, sjá Jürgen Habermas, The Philosophical Discourse of Modernity, þýð. Frederick
Lawrence, London og Cambridge: The MIT Press, 1990, bls. 36–40.
30 Steinar Bragi, Kata, bls. 186.
Björn Þór Vilhjálmsson