Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 187
193
Stuttu eftir andlát Þórarins, eða árið 1927, stóð þýskdanski blaðamað
urinn Georg Gretor fyrir sýningu á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn og
Lübeck. Á sýningunni í Kaupmannahöfn voru nokkur verk eftir Þórarin en
þau rötuðu ekki í minni útgáfu sýningarinnar í Lübeck. Af blaðaumfjöllun
vegna sýningarinnar í Kaupmannahöfn má ráða að verk Þórarins þar vöktu
ekki teljandi athygli og er hans sjaldan getið.21 Í tengslum við sýninguna
í Lübeck gaf Gretor út bók um íslenska menningu og íslenska málaralist.
Af stuttri klausu um Þórarin má skynja hvernig viðbrögð verk hans fengu í
Danmörku og Þýskalandi á þeim tíma:
Fyrstu myndir hans, eftir endurkomuna heim, voru fremur viðvan
ingslegar. En Þórarinn Þorláksson hélt þróun sinni áfram alla ævi.
Þrátt fyrir að hann hefði alla tíð þurft að berjast við þá slæmu og
smekklausu þjálfun sem hann naut, höfðu sumar af síðari myndum
hans listrænt gildi og bera með sér samskonar þróun og einkennir
yngri íslenska listamenn.22
Það er greinilegt að Gretor hrífst ekki af þeim verkum sem Þórarinn
gerði á fyrri hluta ferils síns, þykir þau vanburða. Honum þykir meira
koma til þeirra mynda sem hann gerði síðustu æviárin og kann að meta
þær til jafns við myndir samtímamanna Þórarins. Líklega hefur honum
þótt fyrri myndirnar, líkt og J áður, sverja sig of mikið í ætt við danskan
aldamótanatúralisma.
Þórarinn í listasögum 20. aldar
Árið 1943 kom út yfirlitsrit um íslenska myndlist, það fyrsta sinnar tegund
ar, gefið út af Kristjáni Friðrikssyni.23 Ritið er í tveimur hlutum; fyrst er
stutt yfirlit um feril og verk 20 íslenskra málara, ritað af Emil Thoroddsen
tónskáldi og listgagnrýnanda; síðan kemur grein eftir Gunnlaug Scheving
listmálara um stefnur og strauma í myndlist 20. aldar. Báðir hlutar eru
áhugaverðir fyrir okkur í þessu samhengi; fyrri hlutinn vegna þess hvernig
Þórarinn og list hans birtist tæpum tveimur áratugum eftir dauða hans;
seinni hlutinn vegna þess að þar koma fram vísbendingar um þann skilning
sem Íslendingar höfðu á nútímalistinni.
21 Dæmi um þetta er ýtarleg gagnrýni S. Danneskjold Samsøe í Social Demokratens
Kronik þann 29. desember 1927.
22 Georg Gretor, Islands Kultur und seine junge Malerei, Jena: Eugen Dietrichs, 1928,
bls. 16. Ath. að þýðingar eru allar mínar nema annað komi fram.
23 Íslenzk myndlist: 20 listmálarar, Reykjavík: Kristján Friðriksson, 1943.
VIðTöKUR Á VERKUM ÞÓRARINS B. ÞoRLÁKSSoNAR