Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 54
55
mun andi hátt. Í Soffíukvæði segir frá samdrætti frændsystkina, barnsfæð-
ingum í kjölfarið og að lokum grimmilegri refsingu sem konan þarf að
þola af hendi bróður síns. Í Kvæði af Rögnvaldi og Gunnhildi rægir ridd-
arinn Rögnvaldur Gunnhildi drottningu, þegar hún vill ekki þýðast hann.
Konungurinn, eiginmaður hennar, trúir honum og refsar henni. Í Kvæði
af Margrétu og Eilíf koma sifjaspell, nauðgun, íkveikja og dótturmorð við
sögu, Kvæði af vallara systrabana segir frá því er systir og faðir tveggja fórn-
arlamba hengja ribbaldann og svo í Ebbadætrakvæði, Kvæði af herra kóng
Símoni og Kvæði af Knúti í Borg og Sveini kóngi eru mótaðgerðir kvenna
sem hafa orðið fyrir ofbeldi teknar fyrir.
Öll kvæðin sem hér verður greint frá er að finna í 17. aldar handritum,
og öll nema eitt í Kvæðabók sr. Gissurar Sveinssonar (AM 147 8vo) eða hand-
ritum sem eru náskyld henni.
„Dönsuðu þau so daga fimm, þá rann blóð um safalaskinn“
Í Soffíukvæði26 sér Soffía drottning til þess að Kristín, mágkona hennar og
systir Valdimars konungs, hlýtur grimmilega refsingu. Frúin Kristín er
ýmist sögð hafa átt í ástarsambandi við Burtleif náfrænda sinn eða verið
þvinguð til kynlífs af honum, það er misjafnt eftir gerðum kvæðisins.27
Afleiðingin er sú að Kristín „fæddi mey og svein“ og Soffía drottning
segir kónginum Valdimar frá. Hann fer höndum um systur sína og finnur
að hún er „mjó sem síld“ og reiðist drottningunni fyrir að hafa haft hana
fyrir rangri sök. Hún segir honum að „reyna betur Kristínu, systur þín“.
Hann gerir það og dansar með hana dagana þrjá og svo dagana fimm: „þá
rann blóð um safalaskinn.// Það varð kónginum mest að harm/ dauð lá
hún Kristín á hans arm.“ Samkvæmt einni gerð kvæðisins endar það á form-
úlunni „þrjú fóru þau í steinþró saman“ en ekki er ljóst hverjir fara með
Kristínu í þróna. Vésteinn Ólason getur sér þess til að það séu þeir Valdimar
og Burtleifur.28 Í öðrum gerðum bregst kóngurinn við með því að reiðast
Soffíu drottningu og banna henni að sofa framar í sænginni hjá sér.
Hér má sjá mörg algeng minni. Burtleifur og Kristín eru systkinabörn
og því eru samskipti þeirra sifjaspell samkvæmt tíma kvæðisins – en sifja-
26 Vésteinn Ólason, Sagnadansar, bls. 256–259. Umfjöllun um kvæðið í The Traditional
Ballads of Iceland, bls. 299–306.
27 Í AM 151a 8vo frá fyrsta fjórðungi 18. aldar sýnir Kristín mótþróa, en ekki í syst-
urhandritum AM 147 8vo.
28 Vésteinn Ólason, The Traditional Ballads of Iceland, bls. 299.
„REIF HANN HENNAR STAKKINN, REIF HANN HENNAR SERK“