Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 58
59
að hefndin sé því ekki af sömu rótum runnin og hefnd kvenna í sagnadöns-
um, sem yfirleitt tengist kynferðislegu ofbeldi beinlínis. Hefnd Brynhildar
tengist þó einnig kynferðislegu ofbeldi að hluta, sérstaklega eins og það
birtist í Niflungaljóðum.
„Hann brá sínum tygilkníf, beggja sveik hann systra líf“
Nokkrar konur sagnadansanna grípa til dramatískra hefnda. Í Kvæði af
vallara systrabana eru það systir og faðir tveggja fórnarlamba sem refsa
brotamanninum.36 Í kvæðinu segir frá vallara37 sem hittir tvær systur á
heiði. Hann spyr þær: „Hvort viljið þið heldur láta ykkar líf/ eða vera
mitt eigið víf?“ Þær kjósa að láta frekar lífið og hann bregður hníf sínum
og „svíkur þeirra líf“. Hann grefur þær í moldu og ljós brennur síðan yfir
gröfum þeirra eða þar kemur fram uppsprettulind, það er mismunandi
eftir gerðum, og hefur orðið til þess að kvæðið er flokkað með kvæðum
af yfirnáttúrlegum atburðum í TSB. Vallarinn heldur til byggða og að bæ
systranna. Þar kemur til dyra þriðja systirin, Ása, sem hann vill kaupa með
klæðum systranna sem hann drap. Ása þekkir föt systra sinna og skilur
hvernig í öllu liggur. Hún sækir föður sinn, sem kastar hörpu sinni á gólf.
Sá verknaður var ræddur hér að framan og tilheyrir dramatísku myndmáli
kvæðanna. Kannski endurómar harpan hér sögu systranna eða staðfestir
grun systur þeirra. Feðginin grípa að minnsta kosti til þess ráðs að hengja
vallarann. Hér er þó ekki ljóst hvort vallarinn hafi beitt systurnar kyn-
ferðisofbeldi áður en hann drap þær, en hótun um það er rót þess að þær
láta lífið í viðskiptum sínum við hann. Það eru svo fjölskyldumeðlimir sem
hefna fyrir og drepa ódæðismanninn.
Í Ebbadætrakvæði38 segir frá systrum sem hefna. Dætrum Ebba er
nauðgað í hægaloftinu heima hjá sér. Þar eru Ívars synir, ungir menn af
hærri stigum að verki og þeir vita að þær eru einar heima fyrir utan barn-
ungan bróður þeirra: „Við skulum okkur í hægaloft/ vinna meyjum mein/
þar er ei eftir hefndir að taka/ nema einn ungur sveinn.“ Herra Pétur,
annar Ívarssona, sparkar upp loftdyrunum og eftir ódæðið eru þær fullar
örvæntingar: „Gröfu við okkur í æginn/ og gröfu við okkur í sand/ áður en
þessi ótíðindi/ fréttast upp á land.“ Þær hætta þó við þessi áform og ákveða
36 Vésteinn Ólason, Sagnadansar, bls. 246–247. Fyrirsögnin er úr sama kvæði.
37 Vallari er skýrt sem ferðalangur eða pílagrímur í Íslenskri orðsifjabók, en Vésteinn
Ólason segir orðið þýða ræningi eða stigamaður. Sagnadansar, bls. 376.
38 Sama heimild, bls. 231–236.
„REIF HANN HENNAR STAKKINN, REIF HANN HENNAR SERK“