Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 173
178
okkar skrifandi stétt, virtur höfundur um áttrætt, og sakaði mig um að hafa
sett nauðgunarsenuna í bókina í þeirri von að hún seldist betur. Og klykkti
síðan út með: „Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk?“ Ég
endurtek: „Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk?“
Vá. Þetta var svo klikkað. Og skrýtið. Þetta voru viðbrögð sem ég hafði
alveg gleymt að ímynda mér. Svo mikið hatur, svo mikil reiði. Ég varð
hálf dofinn. Að sjálfsögðu kviknaði í Fésbókinni og auðvitað var þetta
svolítið erfitt, og einna sorglegast að sjá „menntað gáfufólk“ verja höf-
und greinarinnar með þeim rökum að hann hefði eitt sinn skrifað góðar
bækur. En samt sem áður var þetta ekki svo slæmt, þessi tiltekni höfundur
var hvort eð er þekktur fyrir úreltar og öfgafullar skoðanir, kvenfyrirlitn-
ingu og samúð með nauðgurum, og auðvitað eru hæfileikar engin trygg-
ing gegn heimsku. En svo gerðist það nokkrum dögum síðar að ég var í
bílnum og heyrði óvart manninn í útvarpinu lesa fram pistilinn, þann sem
rithöfundurinn aldni hafði skrifað um mig. Já, í helsta menningarþætti
Ríkisútvarpsins okkar heyrði ég stjórnandann fara með þessi orð, og það
jafnvel af einhverskonar þórðarlegri kæti: „Hvaða kynvillingur hefur haft
svona slæman smekk?“
Hér var mér öllum lokið. Gamall sársauki tók sig upp. Á nokkrum and-
artökum hrapaði ég aftur niður í gamla helvítið mitt, allt í einu leið mér
eins og mér hefði verið nauðgað aftur. Mér var gert að ganga í gegnum
þetta enn á ný. Það var sálarlamandi ferli. Þetta var erfiðasta útgáfuvertíð-
in. Og nokkrum vikum síðar var ég mættur í viðtal á Stígamótum, sat þar
í þolendastólnum og opnaði mig fyrir ráðgjafa, þrjátíu árum of seint, en
samt svo fullur af glænýjum sársauka. Þarna lærðist mér að nú væri ég að
ganga í gegnum það sama og allar konurnar, stelpurnar, (og nokkrir karl-
menn) mega ætíð upplifa þegar þau opinbera reynslu sína. Þegar þú sem
brotaþoli segir frá glæpnum færðu strax mikinn stuðning en líka reiði;
það er nefnilega alltaf til fólk sem er til í að ásaka ÞIG fyrir það sem þú
þurftir að þola. Fyrirbæri þetta er vel þekkt í fræðunum og kallast á ensku
„secondary victimization“; endurupplifun brotaþola. Mér var kastað 30 ár
aftur í tímann, ég var niðurlægður á ný og lá eftir nakinn og hjálparvana.
Ég hafði farið frá því að yrkja um sársauka annarra til þess að fjalla um
minn eigin og nú upplifði ég sársaukann sem fylgdi því að gefa þann sárs-
auka út.
En þegar ég hugsa til þessa nú, þremur árum síðar, þykist ég vita að
allt var það nauðsynlegt. Þessi eftir-útgáfu-sársauki var hluti af hinu langa
Hallgrímur Helgason