Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 214
221
– hafa aldrei horfið úr minni sögukonunnar og tjáningarþörfin hefur þar
með flust áfram til hennar. Hún viðurkennir þó að hún muni samræðurnar
vitaskuld ekki orðrétt og frásögnin verði því að vera „skáldsaga“. Þar með
færist samt mælandinn, meintur höfundur sögunnar, í stöðu viðtakanda
sögu sem önnur kona segir. Þegar greint er frá verkinu á þennan hátt
getur það hljómað sem þarna sé brugðið á heilmikinn leik. Sá leikur er
vissulega til staðar en innbyggð í þessa stuttu skáldsögu Jakobínu er fyrst
og fremst býsna slungin og áleitin ígrundun um frásagnir og miðlun lífs-
reynslu. Hvaða frásagnir eru það sem hafa djúptækust áhrif á okkur? Hvers
vegna og í hvaða samhengi?
Jakobína og sögukona hennar ögra lesandanum með því að spyrða
hann saman við „Ríkið“. „Ríkið, það er ég“ eru orð sem eitt sinn voru lögð
í munn frægs manns, en ætla má að flestir íslenskir lesendur (en til hverra
vísa ég með því orðalagi, íslenskra ríkisborgara?) muni frekar vísa til sam-
félags og þjóðar þurfi þeir að skilgreina samhengi sitt. Það er hins vegar
athyglisvert að þótt þessi skáldsaga byggi á kunnri íslenskri veruleikamynd
– með skapandi spennu á milli afskekktrar sveitar og höfuðstaðar lands-
ins á tveimur tímaplönum, fyrst skömmu eftir síðari heimsstyrjöld og svo
þremur áratugum síðar – birtast orðin „þjóð“ og „þjóðfélag“ hvergi í sög-
unni. Þetta getur ekki verið tilviljun, því að þjóðarhugtakið var Jakobínu
mikilvægt. Konurnar tvær eru næturlangt í sama klefa og þær nota báðar
ítrekað orðið „fólk“ um þá sem standa þeim næst og einu sinni segir sögu-
kona meira að segja að þær tali sama mál, mál „fólksins okkar“ – þótt hún
setji sjálf gæsalappir utan um þessi tvö orð.6 En lesandi verður sjálfur að
ímynda sér hvort á bak við eða utan um þessa sögu sé einhver klefi sem
kalla má „þjóð“. Ef sá klefi er eitthvað í líkingu við þann sem geymir kon-
urnar tvær í skáldsögu Jakobínu, þá er hann vettvangur óræðrar deiglu sem
blandin er leyndardómum, slitróttu sambandi, misskilningi og þrá – meðal
annars tjáningarþörf og löngun til að skilja lífsaðstæður annarra. Í þessari
vistarveru er talsvert af ósvöruðum spurningum en líka misskýrum svörum
við spurningum sem ekki er beinlínis varpað fram, svörum sem „lifa þá í
grun og minni annarra, eins og hálfkveðin vísa eða torráðin þula höfunda-
laus“. Um slíkar þulur segir á öðrum stað í sögunni: „Kannski eru þær eftir
konur.“7 Hlutskipti kvenna er sannarlega á döfinni í skáldsögunni og hún
6 Í sama klefa, bls. 55. Orðið „samfélag“ kemur aðeins einu sinni fyrir í sögunni, en
þá ekki laust við kaldhæðni, þegar sögukona nefnir „allt þetta góða og fórnfúsa fólk
í Samfélaginu okkar“ (bls. 79).
7 Í sama klefa, bls. 48 og 43.
JaKOBÍnUVEGIR