Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 185
191
asta.“13 Höfundi finnst að staðarvalið skipti miklu máli, bæði á sögulegum
forsendum og vegna fegurðar staðarins. Hér má greina stolt hjá höfundi
sem tengist meira staðnum sjálfum heldur en því hvernig Þórarinn túlkar
myndefnið. Hér er samlíkingin einnig bókmenntaleg – málverkið á sér
‘yrkisefni’ eins og um ljóð væri að ræða, það er því í huga höfundar í meira
mæli ‘um staðinn’ en ekki sjálfstæð myndtjáning sem staðið gæti án tillits
til myndefnisins.
Næst er fjallað á gagnrýninn hátt um Þórarin og verk hans árið 1910,
í ‘persónulýsingu’ í tímaritinu Óðni.14 Höfundur er ekki nafngreindur en
merkir sig með stafnum „J“.15 Í þetta sinn er matið á verkum Þórarins öllu
hófstilltara. Honum er hrósað fyrir vönduð vinnubrögð. Höfundur efast
þó um listræna hæfileika hans: „Ef til vill má segja, að myndir Þórarins
beri meiri vott um iðni hans og vandvirkni, en um skarpa listamanns
gáfu.“16 Tónninn verður öllu jákvæðari þegar líður á umfjöllunina og ljóst
er að höfundur hrífst af þeirri tjáningu sem birtist í myndum Þórarins.
„Hann leggur meira og minna af sínu eigin – sinni eigin sál – inn í myndir
sínar. Í þessu tilliti eru framfarir hans auðsæjar. Því að honum er sífelt að
fara fram; hann er sífelt að verða frumlegri og – íslenskari í list sinni.“17
Hér eru áherslurnar tvennskonar, annarsvegar er vísun í frumleika og ein
staklingsbundna tjáningu, í anda módernískrar hugsunar í listum, en hins
vegar á þjóðernið – höfundi finnst þessi hæfileiki til frumlegrar persónu
legrar tjáningar vera ‘íslenskari’. Ef við lítum á þessi ummæli sem tákn um
tíðarandann, þá er greinilegt að hér er leitast við að skapa Íslendingum
sérstöðu. Í því skyni lítur höfundur til listamannanna sem eru að hasla sér
völl, og þar er Þórarinn orðinn opinber listamaður og list hans afbrigði af
þjóðlegum natúralisma.18
13 „Myndasýning“, Ísafold 27: 78/1900 (19. desember), bls. 311.
14 J, „Þórarinn B. Þorláksson“, Óðinn 6: 10/1911, bls. 76–77.
15 Mér hefur verið bent á að J sé að öllum líkindum Jón Helgason biskup og listmál
ari, en hann hafði áður skrifað í Óðinn. Sé það rétt skýrir það getu hans til að leggja
gagnrýnið mat á listræna hæfileika Þórarins.
16 Sama rit, bls. 77.
17 Sami staður.
18 Það er ástæða til að taka það fram hér að ekki er ætlunin í stuttri grein að taka saman
fullt yfirlit um verk og ævi Þórarins hér, enda hafi aðrir eins og Valtýr Pétursson og
Júlíana Sveinsdóttir gert þessum þáttum góð skil í ritum sínum sem verða tekin fyrir
síðar í greininni. Hér er einungis gripið niður í valin dæmi sem túlka vel hvernig
umræðan um verk Þórarins var á meðan hann lifði.
VIðTöKUR Á VERKUM ÞÓRARINS B. ÞoRLÁKSSoNAR