Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 99
101
Orðabækur um íslenskt nútímamál segja ekki alltaf berum orðum hvort
samsett orð með -maður séu í raun notuð um bæði kynin. Þar sem orðið
maður hefur ýmist vísað til karla eða verið ókynbundið má búast við að
merkingarskýringarnar geti þótt óljósar. Þannig getur lesandi verið í vafa
um hvort orðið gleðimaður hafi aðeins vísað til karla ef hann flettir upp í
Íslenskri orðabók („1 fjörugur maður, samkvæmismaður 2 þátttakandi í gleði
eða vikivaka“),18 eða Íslenskri nútímamálsorðabók („maður sem er fjörugur í
samkvæmum“).19 Jafnvel þótt honum þættu skýringarnar á gleðimaður eiga
fremur við karl en konu hefði hann ekki fengið úr því skorið hvort fleirtal-
an gleðimenn hafi verið notuð um kynjablandaðan hóp.
Ekki eru þekkt dæmi um orðið gleðikona fyrr en á 18. öld en þá birtist
það í kvæði eftir Eggert Ólafsson:
Gjöri gleði-konum
gautr eptir spaug,
heimskir það á honum
hofmanns kalla taug;
kompánligan halda hinn,
sem, hvörgi tregr, skálk og hvinn
að sèr dregr; orðin svinn
einginn vegr þaug.20
Fyrri helming vísunnar mætti ef til vill skýra á þessa leið: ‘Ef maður gerir
gys að gleðikonum kalla heimskir menn það kurteislega framkomu’ (gautur
‘hetja (hér: maður)’, hofmaður ‘hirðmaður, kurteis maður’). Í færslunni um
orðið gleðikona í Íslensk-danskri orðabók vísar Sigfús Blöndal í kvæði Eggerts
og telur orðið gleðikona svara til „Glædespige“ á dönsku, en það orð merkir
‘léttúðardrós, vændiskona’.21 Í kvæðinu kemur nákvæm merking orðsins
þó ekki fram. Vera kann að Eggert hafi ýjað að því að skemmtanaglöðum
konum sé brugðið um lauslæti, en varhugavert væri að túlka vísuna þannig
að orðið gleðikona hafi merkt ‘vændiskona’ á þessum tíma.
18 Íslensk orðabók, 4. útg., ritstj. Mörður Árnason, Reykjavík: Edda, 2007, bls. 311.
Þessi merkingarskýring er óbreytt frá fyrstu útgáfu Árna Böðvarssonar frá 1963 og
í samræmi við orðabók Sigfúsar Blöndal, Íslensk-dönsk orðabók, Reykjavík: Íslensk-
danskur orðabókarsjóður, 1980 (ljóspr. útg. frá 1920–1924), bls. 257.
19 Íslensk nútímamálsorðabók, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sótt 15.
mars 2018 af http://islenskordabok.arnastofnun.is/islob?ord=15747.
20 Kvæði Eggerts Olafssonar, útgefin eptir þeim beztu handritum er feingizt gátu, Kaup-
mannahöfn, 1832, bls. 141.
21 Sigfús Blöndal, Íslensk-dönsk orðabók, bls. 257.
GLEðiMEnn, GLEðiMEYJAR OG GLEðiKVEnnAFÉLAG VALLAHREPPS
(4)