Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 205
211
róttæk stefna í norrænni list. Í lok umfjöllunar sinnar vísar hún til áhrifa
Rosenblums í umræðu um norræna list, án þess þó að vinna hugmyndir
hans inn í greiningu sína í heild. Hún vitnar einnig til rita Varnedoes, til að
skýra aukinn áhuga á verkum Þórarins á alþjóðavettvangi og vísanir í verk
hans hjá yngri málurum undir lok tuttugustu aldar.
Greinilegt er að Júlíana gerir sér skýra grein fyrir þeim álitamálum og
þverstæðum sem eru til staðar í túlkun á verkum Þórarins, þótt hún eigi
erfitt með að skilgreina list hans á þeim grunni. Hún staðsetur Þórarin út
frá því að hann hallist fremur „að síðrómantískum natúralisma en hinum
róttækari franskættaða natúralisma þar sem áhersla var lögð á verkið sem
heild og túlkun á áhrifum ljósbrigða á myndefnið í stað nosturs við einstök
atriði“.88 Þórarinn á hér því heima á meðal þeirra norrænu samtíðarmanna
hans sem héldu tryggð við klassísk gildi og hefðbundna birtingarmynd
landslags, sem Júlíana túlkar út frá rómantík, fremur en stofnanabundn
um natúralisma. Andstæðan við þessa listamenn eru þeir sem leggja meiri
áherslu á tilfinningagildi lita og birtu, sem virðist vísa til natúralisma í
ætt við avantgarde hugmyndir impressjonismans. Í framhaldinu leggur
Júlíana áherslu á að það nægi ekki að skoða Þórarin eingöngu út frá því að
hann sé síðrómantískur landslagsmálari með ræturnar í hugsun nítjándu
aldar, heldur þurfi einnig að líta til þeirra áhrifa á list hans sem tengjast
því þegar „norræna raunsæisstefnan þróaðist yfir í symbólisma eða það
sem nefnt hefur verið nýrómantík eða stemningsmálverk“.89 Hér eru hug
tökin á floti, þar sem aðgreining er rofin á milli realisma, rómantíkur og
symbólisma, án tillits til umræðu um nútímahugmyndir, avantgarde eða
módernisma á síðari hluta nítjándu aldar. Hér er þó mikilvægt að Júlíana
tekur fram að það séu tengsl Þórarins við norrænan symbólisma, ‘stemn
ingsmálverk’, sem helst haldi nafni Þórarins á lofti. Hér má sjá áhrif hug
mynda Varnedoes og þeirra sýninga sem fylgdu í kjölfarið. Júlíana lýsir
þessum áherslum svo:
Lögð var áhersla á hið persónulega í tjáningu listamannsins sem
menn vildu tengja hugmyndum um hið þjóðlega sem lesa mætti úr
verkinu og væri sjálfsprottið og því í andstöðu við opinbera þjóð
ernisstefnu. Á þann hátt varð landslagsmálverkið birtingarmynd
róttækrar þjóðernisrómantíkur.90
88 Sama rit, bls. 82.
89 Sami staður.
90 Sama rit, bls. 85.
VIðTöKUR Á VERKUM ÞÓRARINS B. ÞoRLÁKSSoNAR